Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 21. febrúar 2023 22:09
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Rautt spjald og misnotað víti í sigri Napoli
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Eintracht Frankfurt 0 - 2 Napoli
0-1 Victor Osimhen ('40)
0-2 Giovanni Di Lorenzo ('65)
Rautt spjald: Randal Kolo Muani, Frankfurt ('58)


Napoli er í draumastöðu fyrir seinni leikinn gegn Eintracht Frankfurt í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir þægilegan sigur í kvöld.

Napoli var talsvert sterkari aðilinn er liðin mættust í Frankfurt. Hirving Lozano átti skot í stöng úr dauðafæri skömmu áður en Khvicha Kvaratskhelia steig á vítapunktinn en brást bogalistin. Kevin Trapp varði spyrnuna glæsilega til að halda stöðunni áfram markalausri.

Hún var þó ekki markalaus lengi því hinn sjóðheiti Victor Osimhen kom boltanum í netið á 40. mínútu eftir góðan undirbúning frá Hirving Lozano sem spretti upp hægri kantinn og gaf flotta fyrirgjöf. Osimhen hélt að hann væri búinn að tvöfalda forystu Napoli 40 sekúndum síðar en ekki dæmt mark vegna rangstöðu.

Frankfurt þurfti að eiga góðan síðari hálfleik til að eiga möguleika gegn ógnarsterkum andstæðingum sínum en það varð ekkert úr þeim áformum þegar skærasta stjarna liðsins fékk að líta beint rautt spjald fyrir hættulega tæklingu.

Randal Kolo Muani, sem hefur komið að 29 mörkum í 30 leikjum á tímabilinu, missti boltann alltof langt frá sér og fór í kjölfarið í harkalega tæklingu með takkana á undan sér. Kolo Muani virðist hafa meitt sig í leiðinni en óljóst hvort þau meiðsli séu alvarleg.

Tíu leikmenn Frankfurt fengu mark á sig skömmu eftir rauða spjaldið. Bakvörðurinn öflugi Giovanni Di Lorenzo skoraði þá með skoti rétt utan teigs eftir sendingu frá Georgíumanninum öfluga Kvaratskhelia.

Napoli komst nálægt því að bæta þriðja markinu við en það gekk ekki og niðurstaðan því þægilegur 0-2 sigur.

Það verður ansi erfitt fyrir Frankfurt að heimsækja Napoli og þurfa að skora minnst tvö mörk án þess að hafa Kolo Muani meðferðis.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner