Það er allt á suðupunkti í spænska fótboltaheiminum eftir að El Mundo kom upp um líklegar mútugreiðslur frá Barcelona til Jose Enriquez Negreira, fyrrum dómara og varaformanns dómarasambandsins á Spáni.
Barcelona hefur ekki tekist að gefa trúverðugar útskýringar á himinháum greiðslum sem bárust til Negreira í gegnum mismunandi leiðir. Stjórnendur félagsins hafa talað um að þetta séu greiðslur fyrir ráðgjafastörf en það eru afar fáir sem trúa því. Javier Tebas, forseti LaLiga, er einn þeirra.
„Ég er búinn að senda bréf til ríkissaksóknara vegna málsins og ég mun hafa samband við FIFA og UEFA ef þess verður þörf," segir Tebas. Barcelona hefur lofað að hefja rannsókn á málinu og segist ætla að veita eins mikið gagnsæi og hægt er meðan á rannsóknarferlinu stendur. „Við ætlum ekki að leyfa Barcelona að rannsaka þetta uppá eigin spýtur," hélt Tebas áfram.
„Stjórnendur Barcelona eru búnir að tjá okkur að þeir hafi verulegar áhyggjur af þessu máli og að þeir séu með þetta til rannsóknar innanborðs - en ekkert meira heldur en það. Það hefur engin rökrétt útskýring verið gefin. Við fengum einungis sent bréf þar sem er m.a. ýjað að því að öll önnur félög í deildinni væru líka að gera sömu hluti."
Joan Laporta, núverandi forseti Barcelona, er meðal þeirra forseta sem sátu við stjórnvölinn hjá félaginu á meðan greiðslur bárust til Negreira.
„Ef hann (Laporta) getur ekki gefið gilda ástæðu fyrir þessum greiðslum ætti hann að segja af sér," sagði Tebas að lokum.
Espanyol, nágrannafélag Barcelona, og Sevilla eru búin að gefa yfirlýsingar frá sér vegna málsins. Spænsku félögin eru sammála Tebas og vilja að málið fari fyrir dómstóla. Búist er við að önnur félög úr spænska boltanum fylgi.
Sjá einnig:
Barcelona sakað um stórfelldar mútur