
„Mér fannst fyrri hálfleikur heilt yfir góður, við vorum að koma okkur í góðar sóknir og góðar stöður. Við komumst ekki í mikið af dauðafærum en hefðum geta nýtt góðu stöðurnar betur," sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari Íslands eftir markalaust jafntefli við Sviss í Zurich í kvöld.
Lestu um leikinn: Sviss 0 - 0 Ísland
„Seinni hálfleikinn byrjuðum við ekkert of vel en eftir sem leið á fannst mér við ná tökum á þessu. Við komum okkur í mjög góðar stöður þá, 1 á 1 á stóru svæði og 2 á 2 á risa plássi. Við náðum ekki að búa okkur til alvöru dauðafæri en það var klafs inni í teig og föst leikatriði og svoleiðis. Við vorum alltaf líkleg þar en einhvern vegin náðu þær alltaf að komast fyrir þetta."
Hvað fannst þér vanta uppá?
„Bara svona lítil atriði, að ná að komast framhjá manninum þegar þú ert komin í einn á einn, og koma þér í alvöru færi. Það var aðallega það og stundum vantaði aðeins meiri ró á boltanum á síðasta þriðjungnum þar sem við vorum mjög oft komin í ágætis stöður en að flýta okkur aðeins of mikið."
Hvað varstu að reyna að gera með skiptingunum sem þú gerðir?
„Bara að reyna að fá ferska fætur inn, búa til fætur og skora. Halda tempóinu í leiknum og reyna að þrýsta inn marki."
Kom svissneska liðið eitthvað á óvart?
„Nei það kom ekkert þannig séð á óvart í leik þess. Við vorum ágætlega undirbúin undir allt sem þær voru að gera.
Ég fékk svör við báðum spurningunum sem ég spurði þig fyrir leik, hver yrði í marki og hvort Dagný Brynjarsdóttir myndi byrja. Afhverju valdirðu að láta Cecilíu Rán Rúnarsdóttur og Dagnýju byrja?
„Cecilía er búin að vera að spila úti en hinir markmennirnir búnir að spila lítið síðustu mánuði. Hún er í góðu leikformi og búin að standa sig gríðarlega vel úti á Ítalíu og var klár í þetta. Svo var augljóst mál að við þyrftum að gera breytingar á miðsvæðinu og ég taldi Dagnýju besta í það í þessum leik. Hún stóð sig fínt og ég var ánægður með hana."
Athugasemdir