Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 21. mars 2020 10:00
Fótbolti.net
Harpa um U23: Höfum ekki verið að brúa bilið
Harpa var gestur Heimavallarins og ræddi mikilvægi þess að Ísland eigi U23 ára lið
Harpa var gestur Heimavallarins og ræddi mikilvægi þess að Ísland eigi U23 ára lið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elín Metta og Svava Rós eru báðar úr öflugum ´95 árgangi og spiluðu einn U23 landsleik fyrir 5 árum
Elín Metta og Svava Rós eru báðar úr öflugum ´95 árgangi og spiluðu einn U23 landsleik fyrir 5 árum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
U23 landslið kvenna verður endurvakið á árinu og var það til umræðu í nýjasta þætti Heimavallarins. Harpa Þorsteinsdóttir, fyrrum landsliðskona, var gestur þáttarins og henni finnst löngu tímabært að við eignumst landslið sem brúar bilið á milli U19 og A-landsliðsins. Ísland hefur aðeins tvívegis leikið U23 landsleiki, það var árin 2012 og 2015.

„Þetta skiptir gríðarlega miklu máli og ég hef alveg látið skoðun mína í ljós á því. Ég sagði við nokkra vel valda aðila hjá KSÍ fyrir áramót að ég yrði fyrir miklum vonbrigðum ef ég myndi ekki sjá einhverja áætlun um U23 ára lið.“

„Það hefur verið pressað á þetta frá öllum vígstöðum og það skiptir máli að maður láti skoðun sína í ljós. Eftir því sem að fleiri láta heyra í sér þá verður þetta meira áberandi. Þeir sem fylgjast eitthvað með kvennabolta og eru eitthvað í kringum þetta finna hvað þetta er mikilvægt. Við erum ekki að ná að brúa bilið á milli (U19 og A-landsliðs) og erum ekki að fá leikmenn nógu tilbúna í A-landsliðið,“
sagði Harpa.

Harpa spilaði sjálf með síðasta U21 árs liði Íslands en það var starfrækt sumarið 2006. Margar úr því liði urðu síðar lykilmenn í A-landsliði Íslands.

„Þó ég hafi verið í U21 verkefninu þá var ég ekki í byrjunarliði þarna og var ekki að spila mikið og ég þekki það að vera föst á bekknum, vera föst í varamannshlutverkinu að reyna að vinna sér inn stöðu, hvað það fer með sjálfstraustið manns. Maður var kannski að spila vel með félagsliði og leið vel þar en svo kemur maður inn í þetta umhverfi þar sem maður þarf alltaf að vera að sanna sig og í svona langan tíma. Ég er ekki að segja að þetta tímabil eigi ekki að eiga sér stað. Það þurfa flestir leikmenn að ganga í gegnum þetta en þegar þetta tímabil er búið að eiga sér stað í 5 ár þá þarftu virkilega að sýna karakter til að komast í gegnum það.“

„Það var talað mikið um ´95 árganginn en þær náðu ekki að festa sig í sessi strax. Það eru margir leikmenn sem að hafa orðið svolítið út undan því þær voru ekki tilbúnar fyrir A-landsliðið. Þær fá kannski tækifæri en fá svo kannski ekki aftur tækifæri því þær voru ekki tilbúnar þegar kallið kom.“

„Eins og með leikmenn eins og Hildi Antons og Svövu Rós. Þetta eru stelpur sem eru búnar að fá kallið öðru hvoru en hafa samt ekki fengið almennileg tækifæri. Ég er ekki að segja að þær hafi átt að vera búnar að spila en þær hefðu átt að vera með verkefni við hæfi til að þroskast sem leikmenn,“
sagði Harpa og nefndi dæmi um leikmenn sem hefðu notið góðs af U21 eða U23 ára landsliði.

Hlustaðu á alla umræðuna í nýjasta þætti Heimavallarins.
Heimavöllurinn - Harpa Þorsteins, U23 og apakettir í USA
Athugasemdir
banner
banner
banner