Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
banner
   mið 21. ágúst 2024 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ný stefna og vinsældir kvennaboltans í KR ástæða þess að samstarfinu við Gróttu var slitið
Mynd: Mummi Lú
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Grótta sendi út tilkynningu í gær að stjórn knattspyrnudeildar KR hefði ákveðið að slíta starfi sínu við Gróttu í 2.-4. flokki kvenna. Ákvörðunin tekur gildi frá og með lokum yfirstandandi keppnistímabils.

„Þessi ákvörðun var tilkynnt án nokkurs fyrirvara og kemur okkur á óvart. Að okkar mati hefur samstarfið borið góðan ávöxt hingað til og skapað svigrúm til að veita sem flestum iðkendum verkefni við hæfi," segir í tilkynningu Gróttu sem má lesa í heild sinni hér neðst.

KR gaf svo út tilkynningu í dag þar sem ákvörðunin var útskýrð.

„Það hefur ávallt verið stefna KR að vera með öflugt starf í yngri flokkum félagsins. Fyrir áratug eða svo var staðan sú að ekki var nægur fjöldi iðkenda hjá félögunum, Gróttu og KR, og því var stofnað til samstarfs í 2. - 4. flokki, báðum félögum til góða."

„Síðustu ár hefur kvennaknattspyna orðið vinsælli og iðkendum hjá KR ásamt öðrum félögum fjölgað jafnt og þétt, það ásamt nýútgefinni stefnu KR um að efla allt starf í kringum kvennaknattspyrnu breytir forsendum KR til þátttöku í samstarfi í þessum flokkum."

„Út frá nýútgefinni langtímastefnu deildarinnar hefur Gróttu verið tilkynnt að stjórn knattspyrnudeildar KR hafi ákveðið að ljúka samstarfi við Gróttu að loknu Íslandsmóti haustið 2024,"
segir í tilkynningu KR.

Ef horft er í meistaraflokka félaganna þá er Grótta í harðri baráttu um að komast upp í Bestu deildina og KR er í góðum séns á sæti í Lengjudeildinni.

Tilkynning KR í dag
Breytingar á kvennaknattspyrnu í KR
Það hefur ávallt verið stefna KR að vera með öflugt starf í yngri flokkum félagsins. Fyrir áratug eða svo var staðan sú að ekki var nægur fjöldi iðkenda hjá félögunum, Gróttu og KR, og því var stofnað til samstarfs í 2. - 4. flokki, báðum félögum til góða.

Síðustu ár hefur kvennaknattspyna orðið vinsælli og iðkendum hjá KR ásamt öðrum félögum fjölgað jafnt og þétt, það ásamt nýútgefinni stefnu KR um að efla allt starf í kringum kvennaknattspyrnu breytir forsendum KR til þátttöku í samstarfi í þessum flokkum.

Út frá nýútgefinni langtímastefnu deildarinnar hefur Gróttu verið tilkynnt að stjórn knattspyrnudeildar KR hafi ákveðið að ljúka samstarfi við Gróttu að loknu Íslandsmóti haustið 2024.

KR mun hafa fullan fókus í vetur til að framfylgja þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð og því mikilvægt að vera með alla yngri flokka innan félagsins. Þá verður eftir sem áður reynslumikið og gott þjálfarateymi í kvennaflokkum KR.

KR þakkar Gróttu kærlega fyrir samstarfið undanfarin ár og óskar félaginu velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru.

Tilkynning Gróttu frá því í gær
Fyrr í dag var okkur í stjórn knattspyrnudeildar Gróttu tilkynnt um að stjórn knattspyrnudeildar KR hefði ákveðið að slíta samstarfi við Gróttu í 2., 3. og 4. flokki kvenna. Ávörðunin tekur gildi frá og með lokum keppnistímabils í Íslandsmóti. Þessi ákvörðun var tilkynnt án nokkurs fyrirvara og kemur okkur á óvart. Að okkar mati hefur samstarfið borið góðan ávöxt hingað til og skapað svigrúm til að veita sem flestum iðkendum verkefni við hæfi.

Knattspyrnudeild Gróttu mun halda sínu striki og starfrækja alla yngri flokka kvenna á komandi tímabili þar sem haldið verður áfram að byggja ofan á það frábæra starf sem unnið hefur verið í kvennaknattspyrnu á Seltjarnarnesi. Eins og kunnugt er er meistaraflokkur kvenna í toppbaráttu í Lengjudeildinni annað tímabilið í röð og uppaldar Gróttustelpur hafa skilað sér upp í liðið nær árlega. Og við erum rétt að byrja. Tilkynnt verður um þjálfara og æfingatíma á næstunni. Allt kapp verður lagt á að byggja upp sterka einstaklinga og frambærilegar knattspyrnukonur til framtíðar.

Við þökkum nágrönnum okkar í KR fyrir samstarfið og óskum félaginu velfarnaðar.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Gróttu mun boða foreldra í viðeigandi flokkum á upplýsingafund í næstu viku þar sem farið verður betur yfir næstu skref.
Virðingarfyllst,

Stjórn knattspyrnudeildar Gróttu
Athugasemdir
banner
banner