Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
   fös 20. september 2024 22:35
Ívan Guðjón Baldursson
Ten Hag um Rashford: Búinn að laga lífsstílinn utan vallar
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Erik ten Hag, aðalþjálfari Manchester United, er mjög ánægður með sóknarleikmann sinn Marcus Rashford sem er búinn að skora þrjú mörk og gefa eina stoðsendingu í síðustu tveimur leikjum.

Rashford skrifaði undir nýjan samning við Man Utd fyrir síðustu leiktíð en átti lélegt tímabil með Rauðu djöflunum 2023-24. Samkvæmt Ten Hag voru það vandamál utan vallarins sem höfðu áhrif á frammistöðu Rashford á síðustu leiktíð og er Hollendingurinn ánægður með að leikmaðurinn virðist vera á leið með að finna aftur sitt besta form.

„Allir leikmenn vita að þegar lífsstíllinn utan vallar er ekki réttur þá er ekki hægt að spila fótbolta upp á sitt besta. Þú getur ekki verið meðal bestu leikmanna deildarinnar ef þú lifir ekki reglusömu lífi utan æfingasvæðisins," sagði Ten Hag á fréttamannafundi í dag fyrir leik helgarinnar gegn Crystal Palace.

„Hann þurfti á smá aðstoð að halda en þegar allt kemur til alls þá er þetta eitthvað sem hann þarf að sjá um sjálfur. Hann verður að lifa reglusömum lífsstíl og vera með jákvætt hugarfar bæði á æfingum og í leikjum. Hann má ekki leyfa neikvæðninni að taka yfir. Þegar hann hugsar um sig eins og fagmanni ber að gera þá mun það skila góðri niðurstöðu vegna þess að Marcus er gæðamikill leikmaður."

Ten Hag er hrifinn af hugarfari Rashford á nýju tímabili þar sem hann nýtti landsleikjahléð í september til að æfa stíft með einkaþjálfara eftir að hafa ekki verið valinn í enska landsliðshópinn.

„Allir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni vita að það þarf mjög sterkt hugarfar til að sinna þessu starfi. Það eru hæðir og lægðir á fótboltaferli hvers leikmanns, Marcus býr yfir mikilli reynslu og þekkir þetta. Hann hefur áður lent í því að eiga slakt tímabil og þurft að vinna sig aftur upp.

„Hann er búinn að byrja nýtt tímabil vel og ef hann heldur svona áfram þá getur hann fundið sama gamla formið sitt. Það er mjög mikilvægt að hann öðlist sjálfstraust með að skora nokkur mörk snemma á tímabilinu. Við erum með nokkra leikmenn í hópnum sem hafa verið að skora fyrsta mánuðinn og það boðar góða hluti fyrir allt liðið."

Athugasemdir
banner
banner