Sigurpáll Melberg Pálsson leikmaður Aftureldingar fékk óvænt verkefni upp í hendurnar þegar hann fagnaði marki sínu í sigrinum á Fjölni í umspili um sæti í Bestu-deildinni í gærkvöldi.
Lestu um leikinn: Afturelding 3 - 1 Fjölnir
Sigurpáll skoraði þriðja mark Aftureldingar í leiknum í 3 - 1 sigri og hljóp til stuðningsmanna uppeldisfélagsins í stúkunni þegar hann fagnaði.
Fögnuðurinn var mikill enda markið gríðarlega mikilvægt en ekki vildi betur til en svo að girðing sem skilur að stúkuna og völlinn hrundi í látunum.
Fremst við girðinguna stóð Hanna Símonardóttir móðir Magnúsar Más Einarssonar þjálfara Aftureldingar og fagnaði en það þýddi líka að hún lenti undir öllum hópnum þegar hrunið varð.
Sigurpáll var fljótur að átta sig og greip Hönnu til að milda fallið og Sævar Atli Hugason liðsfélagi hans aðstoðaði hana svo við að komast upp aftur. Enginn meiddist í látunum og Hanna var hrókur alls fagnaðar í leikslok eftir sigurinn. Myndir af þessu má sjá að neðan.
Athugasemdir