Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   fös 20. september 2024 12:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Framkvæmdastjóri Víkings: Aðstaða íslenska boltans komin á endastöð
'Ánægjulegt að við höfum náð að tryggja íslensku knattspyrnuáhugafólki þessa leiki á Íslandi'
'Ánægjulegt að við höfum náð að tryggja íslensku knattspyrnuáhugafólki þessa leiki á Íslandi'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilað á Kópavogsvelli snemma dags.
Spilað á Kópavogsvelli snemma dags.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það á að koma hybrid gras á Laugardalsvöll í haust.
Það á að koma hybrid gras á Laugardalsvöll í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þakkar KSÍ og Blikum fyrir.
Þakkar KSÍ og Blikum fyrir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur varð annað íslenska liðið til að komast alla leið í sjálfa Sambandsdeildina.
Víkingur varð annað íslenska liðið til að komast alla leið í sjálfa Sambandsdeildina.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Fólk má ekki fara á skíði fyrr en seinni partinn þann daginn'
'Fólk má ekki fara á skíði fyrr en seinni partinn þann daginn'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Strangar kröfur eru á styk flóðljósa fyrir leiki í Evrópukeppnum.
Strangar kröfur eru á styk flóðljósa fyrir leiki í Evrópukeppnum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Í morgun var greint frá því að Víkingur mun spila heimaleiki sína í Sambandsdeildinni á Kópavogsvelli. Leikirnir munu fara fram fyrri hluta dags vegna birtuskilyrða.

Á tímapunkti leit út fyrir að spila þyrfti leikina í Færeyjum þar sem enginn völlur hér á landi uppfyllir skilyrði UEFA um leiki á þessu stigi í Evrópukeppni, en svo veitti evrópska fótboltasambandið Víkingum undanþágu á að spilað yrði fyrr á daginn en venjulega er gert í Sambandsdeildinni.

„Það er ánægjulegt að við höfum náð að tryggja íslensku knattspyrnuáhugafólki þessa leiki á Íslandi. Það var alltaf fyrsti kostur okkur, þetta er búin að vera smá þrautaganga og við höfum unnið þetta mál vel saman, sérstaklega með KSÍ en líka með Blikum út af vellinum. Við erum þakklátir fyrir þessa reynslu," segir Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, við Fótbolta.net.

Á endastöð aðstöðulega gagnvart Evrópuleikjum
Hversu mikið höfðu Víkingar að segja með niðurstöðuna?

„Það er alveg ljóst að íslensk knattspyrna er á endastöð aðstöðulega gagnvart þessum mótum á meðan Laugardalsvöllur er ekki í lagi. Skilmálar UEFA í tengslum við þessa keppni eru mjög strangir. Það var fyrir náð og miskunn, og baráttu KSÍ, að þessi undanþága fékkst. Ég óttast að það þurfi eitthvað mikið að gerast ef lið kemst í deildarkeppni í Evrópu á næsta ári, þá þurfa hlutir að vera í lagi. Það þarf að nýta þetta ár sem er framundan til þess að bæta úr aðstöðumálum, svo þetta komi ekki upp aftur. Næsta lið sem kemst þetta langt lendir annars úr landi með það."

Ómögulegt út af tímarammanum
Haraldur talar um þrautagöngu, voru Víkingar að lenda á mörgum veggjum?

„Framan af var það dálítið þannig, það var ekkert annað í spilunum en að fara í allt að 60 milljóna króna framkvæmd í Kópavogi fyrir 3x90 mínútur - tímabundin lausn. Fá flóðljós leigð erlendis frá og þau færu til baka eftir leikina. Það var í raun eini kosturinn í upphafi, eða þá að fara með leikinn erlendis. Mikill kostnaður og tímaramminn sem við höfðum til að leysa þetta, hann var mjög þröngur. Að því leytinu til var þetta alltaf mjög erfitt mál."

Ekki kom til greina að spila einn leik á Laugardalsvelli og hina leikina annars staðar.

„Það er skilyrði að hálfu UEFA að allir leikir félaganna fari fram á einum og sama vellinum. Fyrst þeir voru að veita undanþágu á að spila megi á Kópavogsvelli, þá var UEFA ekki að fara brjóta þá reglu líka með því að leyfa einum leik að fara fram annars staðar eða eitthvað slíkt. UEFA gefur eftir með kröfu sína með ljósin með því að færa leikina fyrr á daginn. UEFA er auðvitað búið að selja sjónvarpsrétt að þessum leikjum sem eru spilaðir á tveimur leiktímum á fimmtudaginn. Heimaleikir okkar standa fyrir utan þá leiktíma, það er sjálfsagt ekki gott gagnvart þeim sem hafa keypt sjónvarpsréttinn."

Fresta skíðaferðum þar til eftir leik
Hvernig metur Haraldur þetta út frá stuðningsmönnum Víkings, spilað snemma dags á fimmtudögum. Mun það hafa áhrif?

„Vissulega hefur þetta einhver áhrif. En fyrsti heimaleikur okkar, 24. október, er akkúrat fyrsti dagur í vetrarfríi hjá grunnskólum í Reykjavík. Fólk má ekki fara á skíði fyrr en seinni partinn þann daginn. Vonandi náum við að vinna vel með nærumhverfinu okkar, skólum og slíkt, svo að krakkar geti fengið að fara snemma hina tvo dagana til að sjá leikinn. Vonandi fáum við góða mætingu á leikina."

„Ég held að Svíarnir, Djurgården, reikni með að minnsta kosti 500 manns hingað í lokaleikinn. Það verður ekki tómur völlur þá. Það komast 300 í litlu stúkuna í Kópavogi, hörðustu stuðningsmennirnir verða þar. Við komum alltaf 500 manns fyrir."


Stjórnvöld til í að gera allt til þess að halda leikjunum á Íslandi
Kom eitthvað á óvart í samskiptum við stjórnvöld? Var einhvern tímann nálægt því að nást lausn varðandi hver myndi borga brúsann ef þyrfti að leigja ljós?

„Það var tekið stórt og mikið samtal í þessu ferli við ríkisstjórnina og Reykjavíkurborg. Það voru allir einhuga um að leysa þetta mál. Það sem ógnaði þessu almest var þessi tímarammi, við hefðum þurft að koma ljósunum til landsins og setja þau upp ekki seinna en 14. október. Það var stóri óvissuþátturinn, einhvers staðar úti í miðri á kom í ljós að við myndum aldrei ná því."

„Yfirvöld stukku vel á vagninn með okkur að reyna leysa þetta mál. Ég þakkaði KSÍ og Blikum fyrir áðan, en bæði Reykjavíkurborg, ríkisstjórnin og ráðherra þessara mála, Ásmundur Einar, voru mjög hjálpsöm og voru tilbúin að gera allt til þess að halda þessum leikjum í landi."


Í mun betri málum þegar komið verður hybrid á Laugardalsvöll
Verður Laugardalsvöllur lausnin næst þegar íslenskt félagslið spilar Evrópuleiki í október, nóvember og desember?

„Laugardalsvöllur er lausnin, nú á að setja hybrid gras á völlinn og það verður vonandi til þess að hann verði leikhæfur í desember. Undirhiti mun hjálpa til við að halda honum frostfríum. En það er ekkert sjálfgefið að hann sé alltaf leikfær, það gætu verið miklar frosthörkur, ofankoma og allt svoleiðis. Það er ekkert tryggt í þessu, en við verðum í betri málum en áður þegar það verður komið hybrid og undirhiti. Ég held það sé klárt mál að UEFA sé miklu rólegra með stöðu mála hér þegar það verður komið í gagnið," segir Haraldur.

Heimaleikir Víkings í Sambandsdeildinni
Fimmtudagur 24. október
14:30 Víkingur - Cercle Brugge (Kópavogsvöllur)

Fimmtudagur 7. nóvember
14:30 Víkingur - Borac (Kópavogsvöllur)

Fimmtudagur 12. desember
13:00 Víkingur - Djurgarden (Kópavogsvöllur)
Athugasemdir
banner
banner