Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   fös 20. september 2024 20:46
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Empoli og Torino unnu útisigra
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Tveir fyrstu leikir helgarinnar fóru fram í kvöld í Serie A deildinni á Ítalíu, þar sem Empoli og Torino unnu góða sigra á útivelli.

Empoli heimsótti Cagliari í fyrri leik kvöldsins og tók forystuna á 33. mínútu með marki frá Lorenzo Colombo.

Sebastiano Esposito tvöfaldaði forystuna í upphafi síðari hálfleiks og tókst Cagliari ekki að minnka muninn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Heimamenn í Cagliari komust nálægt því að skora í tvígang en tókst ekki. Varnarleikur Empoli var góður og færanýting heimamanna ekki upp á marga fiska.

Í seinni leik kvöldsins komst Torino yfir í Verona en heimamenn voru snöggir að jafna. Staðan var 1-1 þegar Pawel Dawidowicz varnarmaður Verona fékk beint rautt spjald fyrir brot innan vítateigs, þar sem hann gaf andstæðingi sínum olnbogaskot.

Antonio Sanabria, sem skoraði fyrsta mark leiksins, steig á vítapunktinn en skaut í stöng. Boltinn fór aftur út og setti Sanabria hann í netið, en ekki dæmt mark þar sem spyrnumaður má ekki snerta boltann eftir að hafa tekið vítaspyrnu án snertingar frá markverði. Það kom þó ekki að sök þar sem Dúvan Zapata kom Torino yfir á ný með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Valentino Lazaro á 34. mínútu.

Seinni hálfleikurinn var nokkuð jafn þrátt fyrir liðsmuninn en Che Adams, fyrrum leikmaður Southampton sem skipti til Torino í sumar, kom inn af bekknum á 67. mínútu til að innsigla sigurinn með marki tólf mínútum síðar.

Daniel Mosquera minnkaði muninn fyrir tíu leikmenn Verona eftir góða hápressu en markið kom alltof seint og var ekki tími fyrir heimamenn til að jafna metin.

Torino fer á topp ítölsku deildarinnar með þessum sigri, þar sem liðið á 11 stig eftir fimm fyrstu umferðir tímabilsins. Verona situr eftir um miðja deild, með 6 stig.

Empoli er í fjórða sæti með 9 stig eftir sigurinn gegn Cagliari, sem er aðeins komið með 2 stig.

Cagliari 0 - 2 Empoli
0-1 Lorenzo Colombo ('33 )
0-2 Sebastiano Esposito ('49 )

Verona 2 - 3 Torino
0-1 Antonio Sanabria ('10 )
1-1 Grigoris Kastanos ('12 )
1-1 Antonio Sanabria ('22 , Misnotað víti)
1-2 Duvan Zapata ('34 )
1-3 Che Adams ('79 )
2-3 Daniel Mosquera ('90 )
Rautt spjald: Pawel Dawidowicz, Verona ('21)
Athugasemdir
banner
banner
banner