„Við vitum öll hvernig þetta fór í fyrra. Núna ætlum við að koma og hefna fyrir það," sagði Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, þegar hann ræddi við Fótbolta.net í gær.
Á morgun fer fram bikarúrslitaleikur Víkings og KA. Þetta er annað árið í röð þar sem þessi tvö lið mætast en í fyrra höfðu Víkingar betur.
Á morgun fer fram bikarúrslitaleikur Víkings og KA. Þetta er annað árið í röð þar sem þessi tvö lið mætast en í fyrra höfðu Víkingar betur.
„Vonandi muna flestir eftir tilfinningunni í klefanum í fyrra eftir leik. Hversu ömurlegt það var. Annars er þetta bara nýr leikur," segir Ásgeir.
Víkingar eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar. Þá eru þeir á toppi Bestu deildarinnar sem stendur.
„Við erum búnir að funda slatta um þá og horfa á marga leiki. Það er alltaf séns hér og þar hjá þeim. Við náðum sigri á móti þeim nýlega og það hjálpar. Við sjáum hvað virkaði þar og getum tekið það með okkur í þennan leik."
Það yrði mjög stórt
Ásgeir hefur leikið með KA frá 2016 en það yrði ansi stórt ef liðið verður bikarmeistari á morgun.
„Það yrði mjög stórt. Við í félaginu höfum beðið lengi eftir titli. Við verðum að reyna að skrifa söguna og taka bikarinn með norður."
Það er meira undir fyrir KA þar sem liðið getur komist í Evrópukeppni með sigri. Víkingar eru nánast búnir að tryggja sig inn í Evrópu í gegnum deildina. KA getur ekki farið í Evrópukeppni í gegnum deildina, en bikarinn er þeirra síðasti séns. Ásgeir viðurkennir að tímabili yrði vonbrigði ef KA tekst ekki að vinna bikarinn.
„Já, ég myndi segja það. Við viljum vera í efri hlutanum að berjast um Evrópu. Við náum því ekki í gegnum deildina. Þetta er okkar síðasti séns til að gera gott úr þessu," segir hann.
Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir