Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   fös 20. september 2024 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Var að gera Agga alveg geðveikan á tímabili"
'Þú vilt ekki missa af þessu eða hinu'
'Þú vilt ekki missa af þessu eða hinu'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Agnar - Aggi umboðsmaður.
Magnús Agnar - Aggi umboðsmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilaði sjö A-landsleiki og var hluti af hópnum sem fór á EM 2016.
Spilaði sjö A-landsleiki og var hluti af hópnum sem fór á EM 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað hjá AIK.
Marki fagnað hjá AIK.
Mynd: Getty Images
Skildi ekkert í KR að hafna tilboði frá AIK.
Skildi ekkert í KR að hafna tilboði frá AIK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir tímabilið 2014 með KR var Haukur Heiðar Hauksson seldur til AIK í Svíþjóð. Þar lék hann tímabilin 2015-2018 og sneri svo heim í KA.

Haukur var í viðtali í vikunni þar sem hann ræddi um félagaskiptin út. Viðtalið má nálgast í spilaranum neðst.

„Ég var í raun og veru ekki búinn að vera líklegur til þess að fara út. Á fyrsta tímabilinu lendi ég í því að meiðast frekar illa, fór í aðgerð þar sem átti bara að fara í liðþófa. Þá kom í ljós að ég væri með brjóskskemmd og það var borað í það. Ég endaði á því að vera frá í 10-12 mánuði. Það var þá fyrst sem ég ákvað að láta 100% reyna á að verða atvinnumaður. Þú færð tilfinningu þegar maður meiðist svona illa eins og maður að missa fótboltann, það getur ýtt undir þessa tilfinningu að láta reyna á það. Það var ekkert í gangi áður en AIK kom upp," sagði Haukur.

„Haukur, þolinmæði er dyggð"
Hann var með umboðsmanninn Magnús Agnar Magnússon til að aðstoða sig.

„Þeir hjálpuðu mér mikið með þetta. Ég var alveg að gera Agga geðveikan á tímabili þegar þetta var að detta í gegn. Ég held hann hafi verið orðinn vel þreyttur á mér, ég hringdi í hann örugglega oft á dag þegar tilboðin voru. KR höfnuðu fyrstu tilboðunum og ég var alveg að missa hausinn. Ég fékk ein skilaboð frá honum: „Haukur, þolinmæði er dyggð."."

„Nei, ég í raun og veru (skildi KR) ekki. Hausinn var bara kominn á þetta stig, ég var tilbúinn að fara, var alveg kominn þangað. Ég var ekki að sætta mig við að þetta tæki svona langan tíma. Svo er maður líka svo hræddur um að þetta eigi ekki eftir að ganga. En sem betur fer náðist samkomulag á endanum."


Meistari með AIK 2018
AIK var lið sem var alltaf í Evrópukeppni. Frá tímabilinu 2011-2018 endaði liðið neðst í 4. sæti og vann titilinn á lokaári Hauks: 2018.

„Þessi tími var upp og niður. Ég er smá stund að vinna mig inn í liðið og ströggla aðeins í byrjun. Ég gaf eitt skítamark gegn Elfsborg í byrjun sem ég man alltaf eftir. En svo kom þetta undir lok fyrsta tímabils, þá var ég búinn að vinna mig inn í þetta og á öðru tímabili spilaði ég mikið. Þetta var skemmtilegur tími, en auðvitað svolítið litaður af meiðslum."

„Ég spilaði einhverja 20 leiki á tímabilinu 2018, ég var svolítið kominn á bekkinn. Ég var búinn að ströggla mikið með hnéð á mér og búinn að fara í sprautur og svoleiðis. Það var samt geggjað tímabil, geggjað að vinna titilinn. Við vorum með það sterkt lið að það kom ekki á óvart."


Skildi ekki AIK að hafna tilboðinu frá Leeds
Sumarið 2016 bauð enska félagið Leeds í Hauk. Leeds var á þessum tíma í Championship deildinni og var Gary Monk nýtekinn við sem stjóri.

„Leeds bauð í mig. Ég var náttúrulega brjálaður við AIK líka (eins og KR á þeim tíma) að hafa ekki tekið því tilboði," sagði Haukur og hló. „Mig langaði að fara. Ég fann að hlutirnir voru aðeins farnir að snúast gegn mér hjá AIK á þeim tíma. Ég var búinn að vera í veseni með hnéð og AIK kannski farnir að skoða aðra möguleika í hægri bakverðinum. Þá kemur Leeds og býður í mig, en AIK vildi fá meiri pening sem ég skildi ekki af því að þeir voru farnir að finna mann í staðinn fyrir mig. Á endanum var Leeds ekki tilbúið að borga það sem AIK vildi fá. Það var allavega eitt tilboð, veit ekki hvernig þetta þróaðist eftir það."

Hefði eflaust ekki komist í gegnum læknisskoðun hjá Leeds
Haukur talar um hnémeiðsli sín. Hefði hann farið í gegnum allar læknisskoðanir?

„Þegar ég fór til AIK var ég mjög stressaður að komast ekki í læknisskoðunina þar af því ég fann alltaf aðeins fyrir hnénu á mér. En þegar ég kom út þá var bara einhver gamall skarfur sem tók á móti mér, horfði á mig og setti bara upp þumalinn. Ég var alveg feginn að ég skildi ekki fara í dýpri skoðun en það."

„Varðandi Leeds, þá hugsa ég að ég hefði ekki komist í gegnum læknisskoðun þar."


Erfitt að vera skynsamur þegar spennandi hlutir eru í boði
Í lok ferilsins valhoppaði Haukur einhvern veginn á vellinum, hnémeiðslin höfðu það mikil áhrif. Þegar horft er til baka, kemur það honum til baka að hafa náð þetta langt að spila í efstu deild í Svíþjóð og með landsliðinu?

„Nei, í raun og veru ekki. Maður hugsar bara til baka um hvort maður hefði þurft að vera aðeins skynsamari. En það er svo auðvelt að segja... Það er alltaf eitthvað sem tekur við, þú vilt ekki missa af þessu eða hinu, svo var landsliðið og þú vildir komast í hópinn og ná þessum leik."

Hausinn sagði eitt en líkaminn annað
Brjóskskemmdin í hnénu myndaðist við álag. „Ég veit ekki hvað ég hefði getað gert til að koma í veg fyrir það. Svo smátt og smátt fór þetta alltaf versnandi og ég þurfti sterasprautur í hnéð. Á endanum hætti það líka að virka," sagði Haukur sem lagði skóna á hilluna eftir tímabilið 2021.

„Þetta var búið að vera svo mikið bras, ég var meiddur, kom til baka, en sleit svo einhverja sin. Ég var búinn að fá ógeð af því að vera spriklandi um, hausinn sagði eitt en líkaminn allt annað. Ég var kominn með nóg af því. Í dag er skrokkurinn fínn, en hnéð verður ekkert betra. Ég haltra alltaf, en verkjalega séð er ég góður og get spilað golf. Þá er ég bara sáttur."
Haukur Heiðar - Bikarúrslit, Deano og Alexander Isak
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner