Martin Ödegaard verður frá næstu vikurnar eftir að hafa meiðst á ökkla í landsleik með Noregi í síðustu viku. Mikel Arteta, stjóri Arsenal, staðfesti það í viðtali fyrir leik liðsins gegn Atalanta á Ítalíu í Meistaradeildinni á morgun.
„Það sást á myndunum að hann er með skemmdir í kringum liðbönd á ökkla. Þetta er nokkuð slæmt svo við munum vera án hans í dágóðan tíma. Vonandi ekki í einhverja mánuði," sagði Arteta.
Ödegaard missti af sigri liðsins gegn Tottenham um síðustu helgi og verður ekki með á Ítalíu á morgun og þá heimsækir liðið Man City um næstu helgi.
„Hann er fyrirliðinn okkar. Hann hefur vereið einn stærsti og besti leikmaðurinn í okkar liði. Okkar einkenni tengjast mjög mikið hvernig hann spilar og hagar sér. Þetta er stórt próf fyrir liðið að sjá hversu vel við getum sýnt annað andlit."