KSÍ var tilbúið að fresta framkvæmdum við Laugadalsvöll svo Víkingar gætu leikið heimaleiki sína í Sambandsdeildinni þar en UEFA treysti ekki vellinum.
Fyrr í morgun var tilkynnt að heimaleikir Víkings muni fara fram á Kópavogsvelli í dagsbirtu í október, nóvember og desember.
Fyrirhugaðar eru framkvæmdir á Laugardalsvelli þar sem skipta á um undirlag, nú verður lagt hybrid gras með undirhitakerfi. Til stóð að hefja framkvæmdir eftir landsleiki Íslands við Tyrkland og Wales 11. og 14. október en KSÍ var tilbúið að fresta framkvæmdum ef Víkingur þyrfti að leika heimaleiki sína þar.
„Við hefðum frestað framkvæmdum ef það hefði verið hægt að leika á Laugardalsvelli," sagði Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri KSÍ við Fótbolta.net í morgun.
Breiðablik spilaði fyrstu tvo leikina sína í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í fyrra á Laugardalsvelli, gegn Zorya Luhansk 5. október og Gent 9. nóvember en á síðustu stundu varð að færa lokaleikinn gegn Maccabi Tel Aviv 30. nóvember á Kópavogsvöll því völlurinn var frosinn.
„UEFA treystir ekki Laugardalsvelli því það er ekki undirhiti á vellinum," sagði Eysteinn.
„Þetta segja þeir í ljósi reynslunnar frá í fyrra. Völlurinn var frosinn í seinni hálfleik gegn Gent og lokaleikurinn var færður með engum fyrirvara í Kópavoginn. Laugardalsvöllur er ekki hæfur eins og staðan er í dag."
Eysteinn sagði að lokum að KSÍ hafi boðið þann kost að spila fyrsta leik Víkings á Laugardalsvelli en hina tvo annars staðar en UEFA vildi hafa alla leikina á sama velli.
Leikir Víkings verða þessir.
Fimmtudagur 24. október
14:30 Víkingur - Cercle Brugge (Kópavogsvöllur)
Fimmtudagur 7. nóvember
14:30 Víkingur - Borac (Kópavogsvöllur)
Fimmtudagur 12. desember
13:00 Víkingur - Djurgarden (Kópavogsvöllur)
Athugasemdir