Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   mán 21. september 2020 18:25
Brynjar Ingi Erluson
Pepsi Max-deildin: Öruggur sigur ÍA á Gróttu
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö mörk fyrir ÍA
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö mörk fyrir ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 3 - 0 Grótta
1-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('26 )
2-0 Sigurður Hrannar Þorsteinsson ('82 )
3-0 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('87 , víti)

Skagamenn náðu í langþráðan sigur í kvöld er liðið vann Gróttu 3-0 á Norðurálsvellinum í Pepsi Max-deild karla. Tryggvi Hrafn Haraldsson gerði tvö mörk gegn nýliðunum.

ÍA hafði ekki unnið í síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni en síðasti sigur liðsins kom gegn KA þann 15. ágúst.

Gróttumenn hafa á meðan verið í basli með að landa þremur stigum en eini sigur liðsins í deildinni var gegn Fjölni í byrjun júlí.

ÍA komst yfir á 26. mínútu í kvöld en Tryggvi Hrafn skoraði þá beint úr hornspyrnu. Staðan var 1-0 í hálfleik og komu Gróttumenn með ágætis innkomu inn í síðari hálfleikinn.

Skagamenn náðu hins vegar tökum á leiknum og skoruðu tvívegis undir lokin. Sigurður Hrannar Þorsteinsson gerði annað markið á 82. mínútu eftir fyrirgjöf frá Gísla Laxdal. Fimm mínútum síðar fengu Skagamenn svo vítaspyrnu sem Tryggvi Hrafn skoraði örugglega úr.

Lokatölur 3-0 fyrir ÍA sem er nú með 17 stig í 7. sæti á meðan Grótta er með 7 stig í næst neðsta sæti deildarinnar. Bæði lið hafa spilað fimmtán leiki.
Athugasemdir
banner