banner
   fim 21. október 2021 12:30
Elvar Geir Magnússon
Pirringur hjá Dortmund með ummæli Tuchel
Erling Haaland er 21 árs.
Erling Haaland er 21 árs.
Mynd: Getty Images
Yfirmenn Borussia Dortmund eru reiðir yfir ummælum Thomas Tuchel, stjóra Chelsea, um norska sóknarmanninn Erling Haaland.

Tuchel, sem er fyrrum stjóri Dortmund, sagði við fjölmiðla að Chelsea hefði skoðað möguleika á því að kaupa Haaland í síðasta glugga en þótt það óraunhæft. Hann ýjaði svo að því að Chelsea muni gera aðrar tilraunir til að fá leikmanninn.

Eftir þetta tímabil verður 75 milljóna punda riftunarákvæði í samningi Haaland virkt og munu stærstu félög Evrópu berjast um að fá einn besta sóknarmann álfunnar.

„Við ræddum um Erling Haaland nokkrum sinnum í síðasta glugga en það virkaði óraunhæft að fá hann. Hann er frábær leikmaður og lykilmaður fyrir Dortmund. Sjáum hvað gerist á næstu vikum," sagði Tuchel við Bild.

Síðan hann gekk í raðir Dortmund í janúar 2020 hefur Haaland skorað 70 mörk og átt 19 stoðsendingar í 69 leikjum.

Bild segir að æðstu menn Dortmund hafi ekki tekið vel í það að Tuchel talaði opinberlega um áhuga á Haaland. Dortmund vonast enn til þess að geta haldið Haaland áfram eftir tímabilið, þrátt fyrir gríðarlegan áhuga.

Dortmund fékk skell gegn Ajax í Meistaradeildinni í vikunni og talið er að Haaland efist um að hann geti barist um stóra titla með félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner