sun 21. nóvember 2021 22:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þrír Íslendingar á skotskónum - Elías Rafn á bekknum
Viðar Ari hefur átt stórkostlegt tímabil í Noregi.
Viðar Ari hefur átt stórkostlegt tímabil í Noregi.
Mynd: Sandefjord
Adam Örn skoraði.
Adam Örn skoraði.
Mynd: Rune Stoltz Bertinussen
Elías Rafn var á varamannabekknum.
Elías Rafn var á varamannabekknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Þórðarson.
Kolbeinn Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
María Þórisdóttir.
María Þórisdóttir.
Mynd: Getty Images
Alexandra hefur ekki verið í stóru hlutverki á tímabilinu.
Alexandra hefur ekki verið í stóru hlutverki á tímabilinu.
Mynd: Mirko Kappes
Það voru tveir Íslendingar á skotskónum í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Viðar Ari Jónsson hefur átt frábært tímabil með Sandefjord í Noregi og hann var á skotskónum í dag þegar lið hans gerði 2-2 jafntefli við Brann. Viðar Ari jafnaði metin í 1-1 og komst Sandefjord í 2-1 stuttu eftir það, en Brann jafnaði í uppbótartímanum.

Sandefjord er núna sex stigum frá fallsvæðinu þegar þrjár umferðir eru eftir og útlitið frekar gott. Viðar hefur skorað tíu mörk í deildinni á þessu tímabili.

Adam Örn Arnarson nýtti sitt tækifæri þegar Tromsö gerði jafntefli við Vålerenga á útivelli. Bakvörðurinn, sem hefur verið orðaður við heimkomu til Íslands, kom inn á sem varamaður í hálfleik og jafnaði metin á 81. mínútu með sínu fyrsta marki á tímabilinu. Viðar Örn Kjartansson var ekki með Vålerenga í dag vegna meiðsla.

Vålerenga er í sjöunda sætinu í Noregi og situr Tromsö í 11. sæti.

Útlit er fyrir það að Alfons Sampsted verði meistari annað tímabilið í röð með Bodö/Glimt. Alfons spilaði allan leikinn í dag, í 2-0 sigri á Lilleström. Bodö er með fimm stiga forskot á toppnum þegar þrír leikir eru eftir.

Þá voru Brynjólfur Willumsson og Hólmar Örn Eyjólfsson báðir í tapliði. Brynjólfur kom inn í hálfleik er Kristiansund tapaði 3-0 fyrir Stabæk og Hólmar Örn Eyjólfsson var ónotaður varamaður hjá Rosenborg í tapi gegn Molde. Björn Bergmann Sigurðarson var ekki í hóp hjá Molde.

Kolbeinn á skotskónum
U21 landsliðsmaðurinn Kolbeinn Þórðarson skoraði fyrir Lommel í belgísku B-deildinni í endurkomu gegn Deinze á útivelli.

Kolbeinn fékk tækifæri í byrjunarliðinu og nýtti sér það vel. Hann skoraði á 19. mínútu og minnkaði muninn í 2-1. Þetta er fyrsta markið sem Kolbeinn skorar í sjö deildarleikjum fyrir Lommel á þessari leiktíð.

Deinze komst í 3-1, en Lommel náði að koma til baka og jafna í 3-3. Það voru lokatölurnar. Lommel er í sjötta sæti af átta liðum í B-deildinni.

Elías á bekknum
Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson þurfti að sætta sig við það að vera á bekknum gegn Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni. Jonas Lössl var í markinu og fékk hann á sig tvö mörk í tapi.

Elías, sem er gríðarlega efnilegur, er í mikilli baráttu við Lössl og spurning hvað gerist í næsta leik. Midtjylland er á toppnum með fjögurra stiga forskot á toppnum í Danmörku.

Í úrvalsdeild kvenna í Danmörku var Barbára Sól Gísladóttir í byrjunarliði Bröndby í tapi gegn Fortuna Hjörring, 4-1. Bröndby er í þriðja sæti.

Hjörtur spilaði í góðum sigri
Miðvörðurinn Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn þegar Pisa vann flottan sigur gegn Benevento í ítölsku B-deildinni. Hjörtur er á sínu fyrsta tímabili á Ítalíu.

Virkilega góður sigur fyrir Pisa sem er í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum frá toppnum.

Diego í sigurliði gegn Barcelona
Hægri bakvörðurinn Diego Jóhannesson var í sigurliði gegn varaliði Barcelona í C-deildinni á Spáni. Hann spilaði allan leikinn í 2-0 sigri Albacete.

Albacete er í þriðja sæti í sínum riðli í C-deildinni. Markmiðið er að komast upp.

Aron spilaði í tapi í Katar
Miðjumaðurinn Aron Einar Gunnarsson var með fyrirliðabandið þegar Al Arabi tapaði fyrir Al Sailiya í bikarkeppni í Katar. Spilað er í riðli í þessari bikarkeppni og er Al Arabi í augnablikinu í þriðja sæti af fimm liðum.

Sveinn Aron fékk tíu mínútur rúmlega
Í Svíþjóð fékk sóknarmaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen rúmlega tíu mínútur þegar Elfsborg vann 0-1 sigur á Halmstad. Sigurmarkið kom í uppbótartíma. Elfsborg er í fjórða sæti, þremur stigum frá toppnum þegar tveir leikir eru eftir.

Markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson var á bekknum hjá Elfsborg. Kollegi hans, Adam Ingi Benediktsson, var ekki í hóp hjá Gautaborg í 3-3 jafntefli gegn Sirius. Aron Bjarnason var ekki í hóp hjá Sirius og Kolbeinn Sigþórsson ekki í hóp hjá Gautaborg.

Þá var varnarmaðurinn Jón Guðni Fjóluson ekki með Hammarby í 4-1 sigri gegn Degerfors. Hann er að glíma við meiðsli.

María lék í tapi gegn Arsenal
María Þórisdóttir, sem á íslenskan föður, lék allan leikinn þegar Manchester United tapaði 0-2 gegn Arsenal í úrvalsdeild kvenna á Englandi. Arsenal er á toppnum í Englandi en United situr í sjötta sæti.

Alexandra Jóhannsdóttir kom inn á sem varamaður seint í uppbótartímanum þegar Eintracht Frankfurt vann 0-1 sigur gegn Bayer Leverkusen í Þýskalandi. Alexandra hefur ekki verið í stóru hlutverki á tímabilinu til þessa.

María Catharina Gros Ólafsdóttir fékk rúmlega 20 mínútur er Celtic vann 3-1 sigur gegn Aberdeen í úrvalsdeildinni í Skotlandi. Celtic er í þriðja sæti.

Ónotaðir varamenn og ekki með
Ögmundur Kristinsson er varamarkvörður Olympiakos sem vann 3-2 sigur gegn AEK Aþenu í grísku úrvalsdeildinni. Sverrir Ingi Ingason er enn frá vegna meiðsla og var því ekki með PAOK í 2-0 tapi gegn Atromitos.

Vinstri bakvörðurinn Guðmundur Þórarinsson var ónotaður varamaður hjá New York City FC í 2-0 sigri gegn Atlanta United í úrslitakeppninni í MLS-deildinni. New York er komið áfram í næstu umferð.

Róbert Orri Þorkelsson var ekki í leikmannahópi Monteal í 1-0 sigri gegn Toronto í Kanada.

Hörður Björgvin Magnússon er enn frá vegna meiðsla hjá CSKA Moskvu. CSKA gerði markalaust jafntefli við Khimki í rússnesku úrvalsdeildinni.

Sóknarmaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson var ekki með Holstein Kiel í 2-1 tapi gegn Heidenheim í þýsku C-deildinni.

Þá er Íslendingalið Lyon á toppnum í úrvalsdeild kvenna í Frakklandi eftir 4-0 sigur gegn Issy í kvöld. Sara Björk Gunnarsdóttir er á mála hjá Lyon. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í síðustu viku.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner