
Arna Sif Ásgrímsdóttir lék allan leikinn í stórsigri Íslands í lokaleik Pinatar æfingamótsins sem fer fram á Spáni.
Lestu um leikinn: Filippseyjar 0 - 5 Ísland
Ísland keppti þar við Filippseyjar og vann 5-0. Stelpurnar okkar enda því með sjö stig úr þremur leikjum og standa uppi sem sigurvegarar á mótinu.
„Við vorum með góða stjórn á leiknum og hefðum getað skorað meira. Það komu flottir spilkaflar og mörkin voru frábær," sagði Arna Sif að leikslokum. „Við getum verið sáttar með frammistöðuna á mótinu. Við vorum að reyna ákveðna hluti sem gengu misvel en það var gaman að klára þetta á svona heilsteyptri frammistöðu."
Arna var að spila sína fyrstu landsleiki eftir langa fjarveru úr landsliðinu eftir að hafa misst sæti sitt í hópnum 2017.
„Það er ótrúlega skemmtilegt að vera komin aftur í hópinn. Þetta er aðeins öðruvísi en áður þar sem hópurinn er búinn að yngjast aðeins en það er alltaf tekið vel á móti manni. Mér líður mjög vel í hópnum."