
„Ég er gríðarlega spenntur. Við óskuðum þess að fá heimaleik. Stjarnan, það verður gaman og spennandi verkefni að fá þá," sagði Andri Júlíusson, þjálfari Kára, við Fótbolta.net í dag.
Bikarævintýrið heldur áfram hjá Káramönnum sem mæta næst Stjörnunni heima í Akraneshöllinni.
Bikarævintýrið heldur áfram hjá Káramönnum sem mæta næst Stjörnunni heima í Akraneshöllinni.
Kári, sem eru nýliðar í 2. deild, unnu óvæntan sigur á Fylki um páskana og mæta galvaskir í næstu umferð. Kári er venslafélag ÍA og þarna eru margir upprennandi leikmenn að taka sín fyrstu skref í meistaraflokki.
ÍA var enn í pottinum þegar Andri fór upp á svið á Laugardalsvelli. Var hann stressaður að draga Skagamenn upp úr pottinum?
„Já, ég var mjög stressaður fyrir því. Ég sagði við Ingimar og Jón Þór að svo lengi sem ÍA væri enn í pottinum, þá myndi ég draga. Ábyrgðin var á mér."
„Það hefði verið forvitnilegt að mæta ÍA en ég held samt að allir okkar lánsmenn hefðu fengið að spila. Það hefði verið áskorun fyrir ÍA að mæta góðu Káraliði," sagði Andri.
Þá förum við að spila okkar leik
Sigurinn á Fylkismönnum var sterk yfirlýsing hjá Kára fyrir sumarið sem er framundan.
„Mér finnst umræðan svolítið hafa farið í það að þeir hafi fengið öll þessi rauðu spjöld og við unnið út frá því. Ef þú horfir á leikinn sjálfan, þá erum við pínu hræddir við þá fyrstu 10 mínúturnar en svo förum við að spila okkar leik," sagði Andri.
„Ef ég væri gamall leikmaður að spila á móti 16-17 ára pjökkum og láta pakka mér saman, þá yrði ég pirraður líka. Andrúmsloftið í Akraneshöllinni er þannig að ef Káraliðið er í stuði, þá gefum við öllum leik."
Andri segir að umræðan í samfélaginu upp á Akranesi hafi verið skemmtileg eftir þennan óvænta bikarsigur. Í viðtalinu hér að ofan ræðir hann nánar um leikinn gegn Fylki og framhaldið í sumar.
Athugasemdir