
„Ég er bara rosalega vonsvikinn og svekktur fyrir hönd stelpnanna“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, eftir tap gegn Þrótti í Laugardalnum fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 1 Þór/KA
„Við áttum ekki góðan leik í dag, svolítið ólíkar sjálfum okkur. Þetta í rauninni gerðist líka í öðrum leik mótsins á móti Keflavík. Þróttur gekk á lagið og var með yfirhöndina á stórum köflum“ sagði hann svo.
Þór/KA jöfnuðu leikinn á 84. mínútu einungis til að fá svo á sig mark í uppbótartíma og fóru því tómhentar heim.
„Þær unnu sig inn í þetta og voru búnar að vinna sér inn stig að minnsta kosti og við áttum að fara heim með stig í dag en það var annað sem kom í veg fyrir það."
Þór/KA skoraði mark í fyrri hálfleik sem var dæmt af vegna rangstöðu. Það voru skiptar skoðanir um það hvort dómurinn hafi verið réttur og Jóhann var meðal þeirra sem vildu meina að Hulda Ósk hafi ekki verið fyrir innan.
„Ég held að hann hafi haft rangt fyrir sér þarna og það er leiðinlegt þegar það er í stórum tilvikum eins og þessu.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.