Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mán 22. júlí 2024 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Fenerbahce er að kaupa En-Nesyri
Mynd: EPA
Tyrkneska stórveldið Fenerbahce er í stórsókn á leikmannamarkaðinum í sumar.

Liðið mun spila undir stjórn José Mourinho í haust og hefur portúgalski þjálfarinn krafist þess að fá samkeppnishæfan leikmannahóp í hendurnar fyrir komandi átök.

Það eru ýmis stór nöfn sem eru þegar komin inn til félagsins í sumar og mun markaóði Marokkóbúinn Youssef En-Nesyri bætast við hópinn í næsta mánuði.

En-Nesyri er 27 ára gamall og skoraði 20 mörk í 41 leik með Sevilla á síðustu leiktíð. Hann hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Sevilla síðustu ár en vill ekki skrifa undir nýjan samning við félagið.

Hann hefur í heildina skorað 73 mörk í 196 leikjum í treyju Sevilla en þar áður lék hann fyrir Leganes.

En-Nesyri á 20 mörk í 73 landsleikjum með Marokkó. Hjá Fenerbahce mun hann berjast við Cenk Tosun og Edin Dzeko um framherjastöðuna.

Fenerbahce borgar rétt rúmar 20 milljónir evra til að kaupa En-Nesyri, sem á ekki nema eitt ár eftir af samningi við Sevilla.
Athugasemdir
banner
banner