Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
banner
   fim 22. ágúst 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Fer sömu leið og Lagerbäck
Mynd: EPA
Sænski þjálfarinn Janne Andersson verður kynntur sem nýr þjálfari nígeríska landsliðsins á næstu dögum en það er Aftonbladet sem greinir frá.

Andersson hætti þjálfun sænska karlalandsliðsins á síðasta ári eftir að hafa stýrt því í sjö ár.

Á tíma hans þar fór hann með Svía á HM árið 2018 og það í fyrsta sinn í tólf ár, en hann kom liðinu einnig á EM 2020, sem haldið var árið 2021 vegna Covid-faraldursins.

Síðustu ár hans voru vonbrigði. Svíar komust ekki á HM í Katar og mistókst þá að komast á EM í sumar. Það var í fyrsta sinn síðan 1996 sem Svíar spiluðu ekki á mótinu.

Andersson sagði starfi sínu lausu en hann er nú nálægt því að taka við nígeríska landsliðinu. Aftonbladet greinir frá þessu og vitnar þá í nígeríska miðla, en sumir þeirra segja að ráðningin sé svo gott sem frágengin.

Sænski þjálfarinn fetar þar í fótspor Lars Lagerbäck. Sá stýrði sænska landsliðinu í níu ár áður en hann tók við nígeríska landsliðinu fyrir HM 2010.

Lagerbäck entist ekki lengi með landslið Nígeríu en hann stýrði liðinu í alls sjö leikjum áður en hann hætti. Stuttu síðar tók hann við íslenska landsliðinu þar sem hann náði sögulegum árangri með því að koma karlalandsliðinu á EM í fyrsta sinn í sögunni.
Athugasemdir
banner
banner
banner