
„Þetta er frábær sigur; að skora fjögur mörk og halda hreinu," sagði Dagný Brynjarsdóttir eftir 4-0 sigur Íslands gegn Tékklandi í undankeppni HM.
Dagný spilaði í öðru hlutverki í dag en hún gerir vanalega. Hún var djúp á miðjunni og leysti það vel. Þrátt fyrir að spila aftar á vellinum en hún gerir yfirleitt, þá náði hún að skora.
„Við nýttum færin vel og vörðumst vel. Aðstæður voru erfiðar, en við gerðum þetta fagmannlega."
„Það er góð blanda í liðinu. Það er mikil samkeppni um stöður. Það er gott. Það er langt síðan ég hef spilað djúp á miðjunni. Þetta er held ég annar landsleikurinn þar sem ég spila djúp. Það gefur mér ákveðna reynslu. Ingibjörg (Sigurðardóttir) kemur svo inn á miðjuna fyrir mig. Það er fínt að allir séu að fá sína reynslu."
„Ég hef ekki spilað mikið djúp. Þegar ég spilaði með Portland Thorns 2019, þá var ég hálft tímabilið djúp. Ég held ég hafi spilað í þessari stöðu 2014 fyrir landsliðið, í fyrsta leik Freysa. Ég spila þar sem þjálfararnir þurfa á mér að halda. Mér finnst skemmtilegra að vera framar á miðjunni eða 'box-to-box', en ef þeir vilja að ég spili djúp þá spila ég djúp."
Ísland mætir Kýpur í næstu viku. Það er skyldusigur.
Athugasemdir