Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   sun 22. nóvember 2020 10:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mirror: Man Utd gæti misst af 17 ára íslensku undrabarni til Juventus
Kostar fimm milljónir punda auk viðbótagreiðslna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Manchester United er í hættu á að missa af Ísaki Bergmanni Jóhannessyni þar sem Juventus sýnir aukinn áhuga á þessum frábæra unga leikmanni." Svo segir í frétt Mirror um Ísak Bergmann Jóhannesson, sautján ára leikmann IFK Norrköping. Ísak hefur vakið athygli stærstu félaga Evrópu fyrir frammistöðu sína í sænsku Allsvenskan.

Ísak kom inn á sem varamaður gegn Englandi síðastliðinn miðvikudag á Wembley og lék sinn fyrsta A-landsleik. Samkvæmt frétt Mirror vakti Ísak fyrst athygli United fyrir ári síðan en Juventus er sagt hafa tekið fram úr í baráttunni um undirskriftina frá Ísaki. Möguleiki er á því að Ísak verði keyptur í janúar en félög verða að borga það sem Norrköping biður um.

Ísak er sagður kosta fimm milljónir punda (900 milljónir íslenskra króna) í eingreiðslu auk viðbótagreiðslna sem mun tvöfalda þann verðmiða. ÍA, uppeldisfélag Ísaks, á rétt á ákveðinni prósentu af upphæðinni sem Norrköping fær. Talið er að ÍA fái á bilinu 10-20% af söluupphæðinni.

Liverpool er sagt hafa áhuga en Ísak Bergmann er stuðningsmaður Manchester United, eins og Mirror kemur inn á, og segir að draumur Ísaks sé að spila með United. Það stingur í stúf við orð Ísaks á dögunum:

„Manchester United er uppáhaldsliðið mitt en ég á ekkert draumafélag. Núna er Norrköping draumafélagið mitt. United er hins vegar uppáhaldsliðið mitt. Ég bjó í Manchester þegar faðir minn (Jóhannes Karl Guðjónsson) spilaði þar og við sáum marga leiki þar."

Ísak var spurður að því hvort að hann geti þá ekki farið til Liverpool?

„Haha, maður getur ekki sagt það. Þeir spila góðan fótbolta núna. Manchester City og Liverpool hafa verið frábær að undanförnu."
Athugasemdir
banner