Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 23. febrúar 2023 21:58
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Antony hetja Man Utd gegn Barcelona - Roma sneri við taflinu
Antony var hetja Man Utd
Antony var hetja Man Utd
Mynd: EPA
Barcelona er úr leik
Barcelona er úr leik
Mynd: EPA
Paulo Dybala skoraði annað mark Roma og kom liðinu í 16-liða úrslit
Paulo Dybala skoraði annað mark Roma og kom liðinu í 16-liða úrslit
Mynd: EPA
Union Berlín vann góðan sigur á Ajax
Union Berlín vann góðan sigur á Ajax
Mynd: EPA
Manchester United er komið í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir að hafa unnið 2-1 sigur á Barcelona á Old Trafford í kvöld. Roma og Union Berlín fylgja United í næstu umferð.

Það var mikil eftirvænting eftir leik United og Barcelona, enda var fyrri leikurinn stórskemmtilegur fyrir augað.

Marc-Andre ter Stegen þurfti að byrja leikinn á því að verja ágætis skot frá Bruno Fernandes á þriðju mínútu. Casemiro stal boltanum af Frenkie de Jong áður en hann lagði hann á Bruno sem skaut en Ter Stegen varði með löppunum.

Á 16. mínútu benti dómari leiksins á punktinn í teig Man Utd eftir að Fernandes togaði Alejandro Balde niður. Franck Kessie átti fyrirgjöf sem Raphael Varane skallaði í burtu. Balde hljóp á eftir boltanum og Fernandes á eftir honum en Balde fór niður eftir peysutog portúgalska miðjumannsins og vítaspyrna dæmd.

Robert Lewandowski skaut boltanum í hægra hornið. David De Gea giskaði á rétt horn og tókst að koma puttunum i þetta en náði þó ekki að stýra honum frá markinu og staðan 1-0 fyrir Barcelona.

Casemiro kom í veg fyrir að Börsungar kæmust í tveggja marka forystu undir lok fyrri hálfleiks eftir að Roberto komst inn í misheppnaða sendingu David De Gea.

United var með ágætis stjórn á leiknum og tókst að jafna strax í upphafi síðari hálfleiks. Barcelona náði ekki að hreinsa frá eftir innkast og datt boltinn fyrir Jadon Sancho sem kom honum áfram á Fernandes. Hann sá Fred koma í hlaupið við miðjan vítateiginn og tók Brasilíumaðurinn skotið í fyrsta, framhjá Ter Stegen og í hægra hornið.

Þegar hálftími var eftir átti De Gea laglega vörslu frá Jules Kounde eftir fyrirgjöf Alejandro Balde. Tíu mínútum síðar kom sigurmark United.

Eftir ágætis sókn reyndi Alejandro Garnacho skot sem Börsungar komust fyrir og mætti Fred á eftir honum til að reyna það sama en boltinn fór af varnarmanni og til Antony sem lagði boltann skemmtilega í vinstra hornið.

United tókst að halda út, þó naumlega því Varane bjargaði á línu undir lok leiksins frá Robert Lewandoski. Að vísu var dæmd rangstaða en Varane hafði ekki hugmynd um það. Léttir fyrir United sem fagnar góðum 2-1 sigri og fer samanlagt áfram 4-3. Sterkur sigur gegn frábæru liði og United komið í 16-liða úrslit.

Roma og Union Berlín fylgja United í 16-liða úrslitin. Union vann Ajax, 3-1 en fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli. Roma, sem tapaði fyrir Salzburg í síðustu viku, 1-0, sneri við taflinu í kvöld og vann 2-0 sigur. Andrea Belotti og Paulo Dybala skoruðu mörk Rómverja.

Leikur Rennes og Shakhtar er enn í gangi. Rennes er að vinna 1-0 en fyrri leiknum lauk með 2-1 sigri Shakhtar og því framlenging framundan.

Úrslit og markaskorarar:

Manchester Utd 2 - 1 Barcelona (4-3, samanlagt)
0-1 Robert Lewandowski ('18 , víti)
1-1 Fred ('47 )
2-1 Antony ('73 )

Rennes 1 - 0 Shakhtar (Framlengt)
1-0 Karl Toko Ekambi ('52 )

Union Berlin 3 - 1 Ajax (3-1, samanlagt)
1-0 Robin Knoche ('20 , víti)
2-0 Josip Juranovic ('44 )
2-1 Mohammed Kudus ('47 )
3-1 Danilho Doekhi ('50 )

Roma 2 - 0 Salzburg (2-1, samanlagt)
1-0 Andrea Belotti ('33 )
2-0 Paulo Dybala ('40 )
Athugasemdir
banner
banner