fim 23. febrúar 2023 00:36
Brynjar Ingi Erluson
Liverpool á eftir Gvardiol
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool ætlar í baráttuna um króatíska miðvörðinn Josko Gvardiol en þetta segir ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá það að Liverpool sárvantar menn í bæði vörn og á miðju.

Virgil van Dijk er auðvitað leiðtoginn í vörninni en hefur þó ekki verið að skila sömu frammistöðu og undanfarin ár en ekki eru félagar hans í vörninni að hjálpa.

Joe Gomez átti slakan leik í 5-2 tapinu gegn Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum og þá er þetta oft þunnskipað vegna meiðsla. Ibrahima Konate og Joel Matip hafa glímt við meiðsli og mikil þörf á að endurnýja bæði í vörn og á miðju.

Fabrizio Romano segir að Liverpool hafi mikinn áhuga á að fá Gvardiol frá RB Leipzig. Chelsea mistókst að næla í hann síðasta sumar og hækkaði hann síðan í verði eftir frábært heimsmeistaramót með Króötum.

Áhuginn verður enn meiri á Gvardiol í sumar og enn fleiri félög sem eru með hann í efsta sæti á listanum.
Athugasemdir
banner
banner