Javier Aguirre hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Mexíkó í þriðja sinn. Rafael Marquez, fyrrum landsliðsfyrirliði, verður aðstoðarþjálfari hans og er hann hugsaður sem framtíðarþjálfari landsliðsins.
Það er planið að Marquez, sem hefur verið þjálfari varaliðs Barcelona, verði aðstoðarþjálfari næstu tvö árin og taki svo við sem aðalþjálfari Mexíkó fyrir HM 2030. Marquez er einn besti fótboltamaður í sögu Mexíkó.
Aguirre, sem er 65 ára gamall, hefur áður stýrt Mexíkó frá 2001 til 2002 og síðan frá 2009 til 2010. Núna tekur hann við í þriðja sinn. Hann kom liðinu í 16-liða úrslit á bæði HM 2002 og HM 2010.
Hann er afar reynslumikill þjálfari og hefur komið víða við á sínum ferli. Hann hefur einnig þjálfað landslið Japan og Egyptalands, en var síðast stjóri Mallorca á Spáni.
Mexíkó gekk ekki vel á Copa America og féll þar úr leik í riðlakeppninni, en liðið verður á heimavelli á HM 2026. Þar verða Aguirre og Marquez saman við stjórnvölinn.
Athugasemdir