Bandaríski sóknarmaðurinn Josh Sargent hefur hafnað því að ganga í raðir Wolfsburg frá Norwich.
Sky Sports greinir frá því að félögin hafi verið nálægt samkomulagi um Sargent eftir að Wolfsburg lagði fram 21 milljón punda tilboð á föstudag.
Sargent hafði hins vegar ekki áhuga á að ganga í raðir Wolfsburg og náðu því viðræðurnar ekki lengra.
Framherjinn fór í gegnum akademíuna hjá Werder Bremen, en virðist ekki áhugasamur um að snúa aftur í þýska boltann.
Samkvæmt Sky eru nýliðar ensku úrvalsdeildarinnar í Burnley mjög áhugasamir um að fá Sargent, en félögunum kemur ekki saman um verð.
Daniel Farke, stjóri Leeds, er einnig mjög hrifinn af Sargent, en Rodrigo Muniz, framherji Fulham, er efstur á óskalista Leeds. Ef þær viðræður ganga ekki upp mun félagið skoða það að fá Sargent.
Sargent, sem er 25 ára gamall, hefur skorað 31 mark á síðustu tveimur tímabilum í ensku B-deildinni.
Athugasemdir