Englandsmeistarar Liverpool eru ekki hættir á félagaskiptamarkaðnum en þetta segir hinn áreiðanlegi Paul Joyce hjá Times.
Liverpool gekk frá kaupum á franska sóknarmanninum Hugo Ekitike frá Eintracht Frankfurt fyrir 79 milljónir punda í kvöld og er eyðsla Liverpool komin upp í um það bil 300 milljónir punda í sumarglugganum.
Félagið 'stal' Ekitike frá Newcastle United sem var í viðræðum við Frankfurt um framherjann. Liverpool beið þangað til á síðustu stundu til þess að sækja Ekitike, svipuð taktík og félagið notaði þegar það keypti Luis Díaz frá Porto fyrir þremur árum.
Þá var Tottenham í viðræðum við Porto en Liverpool stökk inn á elleftu stundu og 'stal' honum frá kollegum sínum í Lundúnum.
Joyce fullyrðir að Liverpool sé ekki hætt á markaðnum og næst á dagskrá sé að kaupa miðvörð.
Marc Guehi, fyrirliði Crystal Palace, er efstur á óskalistanum, en hann hefur verið orðaður við Liverpool í allt sumar og gæti verið falur fyrir 30-50 milljónir punda. Hann verður samningslaus á næsta ári og stefnir ekki að því að framlengja samning sinn við Lundúnafélagið.
Einnig kemur Joyce inn á það að Liverpool hafi enn mikinn áhuga á að fá Alexander Isak frá Newcastle, hvort sem það sé að fá hann í þessum glugga, janúar eða á næsta ári.
Newcastle hefur tekið það fram að hann sé ekki til sölu í sumar og fælt félög frá með því að setja 150 milljóna punda verðmiða á hann.
Athugasemdir