Silkeborg 1 - 1 KA
1-0 Callum McCowatt ('38 )
1-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('91 )
Lestu um leikinn
1-0 Callum McCowatt ('38 )
1-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('91 )
Lestu um leikinn
KA gerði 1-1 jafntefli við Silkeborg í fyrri leik liðanna í 2. umferð í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á JYSK-vellinum í Silkeborg í Danmörku í kvöld.
Silkeborg hefur verið eitt af sterkustu liðum Danmerkur síðustu ár og var þetta því ágætis próf fyrir Akureyringa sem stóðust það með prýði.
KA-menn voru með leikinn eins og þeir vildu hafa hann. Lítið að gerast fyrsta hálftímann eða svo en eina mark leiksins kom nokkrum mínútum síðar.
Heimamenn sóttu hratt upp völlinn og var það Pelle Mattsson sem fann Callum McCowatt, sem klíndi honum fyrir utan teig í í hornið.
Guðjón Ernir Hrafnkelsson fékk langbesta færi KA-manna í fyrri hálfleiknum er Hallgrímur Mar Steingrímsson lagði boltann inn á hann og Guðjón að komast einn í gegn á móti Nicolai Larsen, en Guðjón hikaði og rann færið út í sandinn.
Flott frammistaða hjá KA-mönnum í fyrri hálfleik og var hún ekki síðri í seinni hálfleiknum.
KA-menn vörðust vel gegn ágengum sóknartilburðum heimamanna fyrstu fimmtán mínúturnar áður en leikurinn róaðist aðeins.
Á 63. mínútu kom síðan úrvalsfæri fyrir KA er Steinþór Már Auðunsson kom boltanum langt fram völlinn á Ásgeir Sigurgeirsson sem náði að koma sér inn á teiginn, en skot hans fór hárfínt framhjá markinu.
Birnir Snær Ingason, sem kom til KA frá Halmstad á dögunum, kom með öfluga innkomu af bekknum. Hann kom boltanum í netið þegar um tuttugu mínútur voru eftir en var dæmdur rangstæður enda rétt fyrir innan og stuttu síðar átti hann hörkuskot sem Larsen varði í markinu.
Mark Akureyringa lá í loftinu og kom það í byrjun uppbótartíma. Rodrigo Mateo skallaði niður fyrirgjöf Marcel Römer og fyrir Hallgrím Mar sem skoraði með góðu skoti fram hjá Larsen í markinu.
Ótrúlega dýrmætt mark sem kemur KA í frábæra stöðu fyrir síðari leikinn sem fer fram á Greifavellinum í næstu viku. Frammistaðan heilt yfir mjög góð og Akureyringar í góðum séns á að komast áfram.
Athugasemdir