Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   lau 23. október 2021 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Lögregla rannsakar borða stuðningsmanna gegn Newcastle
Crystal Palace og Newcastle gerðu 1-1 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í dag og er lögregla með borða sem stuðningsmenn Palace tóku með sér inn á völlinn til rannsóknar.

Borði Crystal Palace gerir grín að stuðningsmönnum Newcastle sem hafa verið að fagna nýju eignarhaldi félagsins dátt undanfarna daga. Þeir eru loksins búnir að losna við Mike Ashley og félagið komið yfir í eigu hinnar moldríku Sádí-arabísku konungsfjölskyldu.

Mohammed bin Salman fer fyrir fjárfestingarsjóði konungsfjölskyldunnar sem er búið að kaupa Newcastle. Sá maður er ásakaður um að hafa tilskipað morðið á fréttamanninum Jamal Khashoggi og er konungsfjölskyldan sjálf ásökuð um ýmsa hluti sem hafa margir hverjir verið sannaðir.

Borði stuðningsmanna Palace er nokkuð einfaldur og gerir bæði grín að Newcastle og stjórn ensku úrvalsdeildarinnar. Nýir eigendur þurfa fyrst að standast kröfur úrvalsdeildarinnar sem hafnaði fyrri tilraun konungsfjölskyldunnar til að taka yfir Newcastle. Seinni tilraunin gekk án vandræða þó flestir unnendur enskrar knattspyrnu séu mótfallnir þessu nýja eignarhaldi.

Borðann má sjá hér til hliðar og segir hann söguna sjálfur. Lögregla er með hann til skoðunar vegna mögulegs rasísks innihalds.

„Við höfum endurheimt félagið okkar" stendur efst á borðanum og undir textanum er maður klæddur í arabískum stíl með blóð á sverðinu sínu.

Við hliðina á manninum með sverðið má finna Richard Masters, forseta ensku úrvalsdeildarinnar. Hann er með peningapoka við fæturnar með arabískum stöfum og leggur fram kröfurnar sem deildin gerir til nýrra eigenda. Samkvæmt borðanum þurfa nýir eigendur að gerast sekir um hryðjuverkastarfsemi, hálshöggvanir, mannréttindabrot, morð, ritskoðun og ofsóknir til að geta keypt félag í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner