Gísli Laxdal Unnarsson gekk í gær í raðir ÍA á nýjan leik eftir rúmlega eins árs veru hjá Val á Hlíðarenda. Gísli er uppalinn Skagamaður og hafði leikið þar allan sinn feril þar til hann gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2024.
Skagamenn kaupa Gísla sem var samningsbundinn Val. Hann er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst nokkrar stöður á vellinum, býr yfir miklum hraða. Fótbolti.net ræddi við Jón Þór Hauksson, þjálfara ÍA, í dag.
Skagamenn kaupa Gísla sem var samningsbundinn Val. Hann er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst nokkrar stöður á vellinum, býr yfir miklum hraða. Fótbolti.net ræddi við Jón Þór Hauksson, þjálfara ÍA, í dag.
Er Gísli leikmaður sem fyllir í skarðið sem Hinrik Harðarson skilur eftir sig?
„Meðal annars já. Gísli er frábær leikmaður sem getur leyst margar stöður og gerir það í okkar liði, alveg klárt mál," segir Jón Þór.
Maður horfir samt á hann sem meiri kantmann heldur en Hinrik var hjá ykkur.
„Það var nú líka oft talað um Hinrik að hann væri að leysa einhverja kantstöðu og svoleiðis. Það er talað um stráka sem hafa mikið spilað 4-3-3 að þeir séu kantsentarar og eitthvað svoleiðis. Við eigum fjöldann allan af fótboltamönnum sem má skilgreina sem þessar kantsentera-týpur, Gísli er einn af þeim. Það er svo okkar að koma honum inn í okkar leikstíl og aðferð svo hans styrkleiki fái að njóta sín sem best. Ekkert ósvipað og var með Hinrik, það gekk mjög vel hjá honum og alltaf betur og betur eftir því sem leið á, eðlilegt að það taki tíma. Gísli þekkir umhverfið og þekkir okkur, sem er jákvætt."
Sérðu ykkur meira fara í 3-4-3 leikkerfið frekar en 3-4-1-2?
„Það er eitthvað sem við höfum gert, ef ég man rétt þá vorum við mikið í því á undirbúningstímabilinu í fyrra. Við höfum gert það líka að hluta til á þessu undirbúningstímabili. Við höfum öflugan og góðan leikmannahóp sem ræður vel við það, og mér finnst það alls ekkert ólíklegt. Það er allavega vopn sem eigum að hafa í okkar búri."
Það er einhvern vegin rökrétt að Gísli sé mættur aftur á Skagann, þetta á bara að vera svona, er það ekki?
„Hann átti náttúrulega aldrei að fara héðan," sagði Jón Þór og hló. „Hann er að leiðrétta þau mistök núna og það er bara vel. Batnandi mönnum er best að lifa og allt það."
„Það er núna okkar hlutverk að taka vel á móti honum og ná því besta úr honum. Hann hefur spilað gríðarlega vel hérna á Akranesi, nú er bara að taka upp þráðinn og gera enn betur."
Eruð þið að leita að fleiri leikmönnum eða eruð þið fullkomlega sáttir með hópinn?
„Við erum mjög sáttir, virkilega ánægðir með liðið og hópinn. Nú þurfum við bara að fá þessa landsliðsmenn alla til baka, svo við getum farið að æfa eitthvað og hafið okkar lokaundirbúning fyrir mótið. Við erum með gríðarlegan fjölda af strákum víðs vegar um Evrópu í landsliðsverkefnum. Ég er mjög ánægður með hópinn, en við erum svo sem ekkert búnir að loka neinu."
„Ef eitthvað spennandi kemur upp þá værum við alveg klárlega tilbúnir í að skoða það, erum alltaf að leitast eftir því að styrkja liðið þannig við útilokum ekki neitt, en við erum mjög ánægðir," segir Jón Þór.
Athugasemdir