Chrisander Sörum er 19 ára Norðmaður sem var í síðustu viku á reynslu hjá Skagamönnum. Hann er sóknarmaður sem Skagamenn skoða nú hvort eigi að semja við fyrir komandi tímabil.
„Það er eitthvað sem við eigum eftir að skoða í rólegheitum," segir Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, við Fótbolta.net.
„Hann flaug heim í gær, virkilega efnilegur strákur; varð 19 ára núna þegar hann var hjá okkur. Hann spilaði seinni hálfleikinn á móti HK í æfingaleiknum á laugardaginn. Hann sýndi okkur það í liðinni viku að hann hefur ýmislegt til brunns að bera. Hvort við semjum við hann er eitthvað sem við eigum eftir að setjast niður með og ræða innan félagsins, hvort það sé leiðin sem við viljum fara. Það hefur engin ákvörðun verið tekin með það ennþá, en hann er virkilega flottur strákur og efnilegur fótboltamaður, það er ekki spurning," segir Jón Þór.
Athugasemdir