Það er mikil umræða á Englandi þessa dagana þar sem enska landsliðið leitar að nýjum þjálfara til að leiða þjóðina áfram eftir að Gareth Southgate sagði starfinu lausu eftir EM í Þýskalandi.
England hefur sjaldan náð jafn góðum árangri á stórmótum og það hefur gert undir stjórn Southgate, en tókst þó ekki að hampa neinum titli. Þess í stað fengu Englendingar tvenn silfurverðlaun, á EM 2020, sem var haldið 2021, og á EM 2024.
Það eru ýmsir þjálfarar sem koma til greina til að taka við landsliðinu og þar hafa Eddie Howe, Graham Potter og Lee Carsley helst verið nefndir til sögunnar, ásamt Mauricio Pochettino sem er þó talinn ólíklegur.
Howe er við stjórnvölinn hjá Newcastle á meðan Potter er án starfs eftir rúmlega árslangt frí frá fótboltaheiminum. Carsley stýrir U21 landsliði Englands og þá er Pochettino atvinnulaus eftir að hann var rekinn frá Chelsea í sumar.
Sky Sports hefur verið að velta þessum þjálfurum fyrir sér undanfarna daga og eru tveir fótboltasérfræðingar og fyrrum landsliðshetjur Englendinga sammála um að Graham Potter sé rétti maðurinn í starfið.
Kantmaðurinn fyrrverandi John Barnes telur Potter vera rétta manninn í starfið og er fyrrum framherjinn Jermain Defoe sammála.
Athugasemdir