Slóvakinn David Hancko er mættur til spænska félagsins Atlético Madríd eftir að hafa orðið fyrir hrikalegri höfnun frá sádi-arabíska félaginu Al Nassr.
Al Nassr hafði náð samkomulagi við Feyenoord um miðvörðinn stóra og stæðilega, og var í raun allt meira og minna frágengið.
Leikmaðurinn flaug til Portúgal þar sem Al Nassr er í æfingabúðum og átti að gangast undir læknisskoðun en var í raun bara vísað á dyr og hætt við félagaskiptin.
Raymon Salomon, talsmaður Feyenoord, segist aldrei hafa orðið vitni að öðru eins.
„Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt. Þeir leyfðu honum að ferðast í æfingabúðir félagsins, en síðan var ákveðið að hann væri ekki velkominn þrátt fyrir að búið væri að ná samkomulagi um kaup og sölu,“ sagði Salomon.
Skellur fyrir hinn 27 ára gamla Hancko en þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar. Fabrizio Romano sagði frá því í gær að Feyenoord væri búið að samþykkja 34 milljóna evra tilboð Atlético Madríd í Hancko og hefur spænska félagið nú tilkynnt komu hans.
Hancko kom til Feyenoord árið 2022 og var einn af lykilmönnum liðsins er það varð deildarmeistari árið 2023 og bikarmeistari á síðasta ári.
Athugasemdir