Freyr Alexandersson var vægast sagt ósáttur við dómgæsluna eftir tap Brann gegn Salzburg frá Austurríki í forkeppni Meistaradeildarinnar í gær. Hann sagðist orðlaus, svo slæm hefði hún verið.
Brann var 1-0 yfir eftir fyrri hálfleikinn í Bergen en í seinni hálfleiknum fór allt úrskeiðis og lærisveinar Freysa töpuðu að lokum 1-4 og eru í vondum málum fyrir útileikinn.
„Fyrri hálfleikurinn var góður. Svo gerum við heimskuleg mistök," sagði Freyr eftir leikinn.
En stóra málið í leiknum var það líklega að Mamady Diambou hefði átt að fá rautt spjald fyrir tvær ljótar tæklingar með skömmu millibili eftir jöfnunarmarkið. Dómarinn gaf honum hins vegar bara gult spjald og Salzburg gekk á lagið.
„Ég er reiður út af því. Þetta er svo slæmt að ég er orðlaus," sagði Freyr. „Þetta er bara brandari."
Damian Sylwestrzak fær ekki jólakort frá Freysa eftir þennan leik en norskir fjölmiðlar reyndu að tala við dómarann þegar hann gekk í burtu frá leikvanginum. „Engar spurningar," sagði hann hins vegar, en Brann á því miður ekki mikinn möguleika fyrir seinni leikinn.
Athugasemdir