Isak til Liverpool og Sesko til Newcastle - Aston Villa segir nei við United - Bayern ætlar sér að fá Díaz
   fim 24. júlí 2025 07:15
Brynjar Ingi Erluson
„Ronaldo hefði frekar átt að fara til Man City“
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo
Mynd: EPA
Portúgalinn Cristiano Ronaldo tók ranga ákvörðun með að ganga í raðir Manchester United árið 2021 en þetta segir Gary Pallister, fyrrum leikmaður félagsins, í viðtali við BetVictor.

Ronaldo sneri óvænt til baka á Old Trafford árið 2021, tólf árum eftir að hafa yfirgefið félagið.

Hann raðaði inn mörkum undir Ole Gunnar Solskjær og var liðinu mikilvægur, en fékk mjög sérstaka meðferð þegar hollenski þjálfarinn Erik ten Hag tók við og fór það svo að hann rifti samningi sínum við félagið undir lok árs 2022.

Pallister, sem vann tíu titla á níu árum sínum hjá United, segir að hann hefði líklega frekar átt að fara til Manchester City, sem hafði áhuga á að fá Portúgalann á sama tíma.

„Það mun enginn gleyma því hvað Cristiano Ronaldo gerði á fyrsta kafla sínum hjá Manchester United, en síðan auðvitað fór hann. Mér fannst það aldrei vera góð hugmynd fyrir hann að snúa aftur á þessum tíma og hefði það verið langbest fyrir hann að fara til Manchester City, það er að segja ef félagið hafði í raun og veru áhuga á að fá hann. Hann hefði skorað fullt af mörkum fyrir Man City ef hann hefði farið þangað.“

„Hann valdi rangan tímapunkt til að koma aftur til Manchester United. Auðvitað hefði það slegið á hjartastrengi, það er engin spurning, og að koma á stað sem hann elskaði að spila á en við vorum ekki rétta liðið fyrir Cristiano á þessum tímapunkti. Við vorum ekki nógu góðir og vorum ekki að fara skapa færin fyrir hann því hann er leikmaður sem lifnar við í teignum og elskar að spila þar. Man City hefði fundið hann á þessu svæði og þar hefði hann skorað mörkin. Við þurftum meira frá Cristiano hjá Man Utd og ég held að hann hafi bara ekki verið fær um hlaupa eins mikið og hann gerði á hápunkti ferilsins. Þetta var bara rangur tími fyrir Cristiano til að koma til baka og hafði eflaust mikil áhrif á orðsporið, en þegar maður horfir á félagið í dag þá skilur maður vel pirring hans,“
sagði Pallister.
Athugasemdir
banner
banner