Javier Hernandez, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi framherji Chivas í Mexíkó, hefur verið sektaður og varaður við framtíðarhegðun sinni vegna karlrembulegra skrifa á samfélagsmiðlum.
Mexíkóska knattspyrnusambandið segir að leikmaðurinn, sem er 37 ára, hafi sett fram ummæli á TikTok sem stuðla að kynbundnum staðalímyndum. Hann sagði konur vera að bregðast í samfélaginu með því að vega að karlmennsku.
Hernández sagði einnig: „Ekki vera hræddar við að vera konur, leyfið ykkur að vera leiddar af karlmönnum.“
Ummælin vöktu mikla gagnrýni, þar á meðal frá forseta Mexíkó, Claudia Sheinbaum, sem sagði: „Chicharito er mjög góður knattspyrnumaður en þegar kemur að skoðunum hans um konur þá á hann enn margt ólært.“
Chivas hefur gefið út að ummælin séu ekki í samræmi við gildi félagsins.
Hernandez, sem er markahæsti leikmaður í sögu landsliðs Mexíkó, lék með Manchester United á árunum 2010-2014 og vann ensku úrvalsdeildina tvisvar. Eftir tíma hjá Real Madrid, Bayer Leverkusen og West Ham snéri hann síðar aftur til Mexíkó til að leika með Chivas árið 2023.
Athugasemdir