Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   mán 25. janúar 2021 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Tel það enga tilviljun að allir sigrar nema einn komi þegar ég er í byrjunarliði"
Viðar Ari Jónsson átti góða leiktíð með Sandefjord.
Viðar Ari Jónsson átti góða leiktíð með Sandefjord.
Mynd: Sandefjord
Viðar og Davíð Kristján Ólafsson, leikmaður Álasund.
Viðar og Davíð Kristján Ólafsson, leikmaður Álasund.
Mynd: Sandefjord
Viðar lék með FH að láni sumarið 2018.
Viðar lék með FH að láni sumarið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Lokaspurningin var út í landslðið, svar Viðars birtist síðar í dag.
Lokaspurningin var út í landslðið, svar Viðars birtist síðar í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég ætla ekkert að vera að ljúga því að það var dásamlegt að skora á móti Brann
Ég ætla ekkert að vera að ljúga því að það var dásamlegt að skora á móti Brann
Mynd: Brann
Það verður erfitt að fylla skarðið sem hann skilur eftir, jafnt innan sem og utan vallar.
Það verður erfitt að fylla skarðið sem hann skilur eftir, jafnt innan sem og utan vallar.
Mynd: Sandefjord
En ég hef engar áhyggjur, þetta er bara hraðahindrun á veginum og þeir verða mættir aftur upp í efstu deild áður en við vitum af
En ég hef engar áhyggjur, þetta er bara hraðahindrun á veginum og þeir verða mættir aftur upp í efstu deild áður en við vitum af
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Ari Jónsson er Fjölnismaður sem gekk í raðir norska félagsins Brann fyrir tímabilið 2017. Hann lék með Brann í efstu deild það tímabil en árið 2018 kaus félagið að lána hann í FH. Eftir það tímabil skipti Viðar um félag og gekk í raðir Sandefjord sem lék þá í næstefstu deild.

Tímabilið 2019 komst Sandefjord upp í efstu deild og á nýliðinni leiktíð blés liðið á allar hrakspár og hélt sér í deild þeirra bestu. Fótbolti.net heyrði í Viðari og spurði hann út í liðið tímabil og ýmislegt fleira. Spurningar spyrils eru feitletraðar og svör Viðars eru skáletruð.

Þú skorar tvö mörk og leggur upp fimm og tekur þátt í öllum leikjum nema þremur. Hvernig horfiru á þetta tímabil í heild sinni? Var gott að geta hjálpað til á báðum endum vallarins?

„Heilt yfir var þetta flott tímabil, liðið spilaði virkilega vel stærstan hutan af mótinu sem var vissulega skrítið í ár. Fyrir mig persónulega fer ég sáttur frá borði með tímabilið, náði að hjálpa til á báðum endum vallarins eins og þú komst inná. Mjög gott að fá traustið frá þjálfaranum fyrir fleiri en einni stöðu. Og finnst mér það sýna styrkleika minn á vellinum að geta leyst margar stöður."

Lendiru í smá meiðslum þegar þú missir af tveimur leikjum í águst?

„Já, ég tognaði aftan í læri á æfingu um mitt sumar og missti því af þesum tveimur leikjum."

Var sætt að skora gegn Brann? Kannski súrt að Brann kom til baka í leiknum?

„Ég ætla ekkert að vera að ljúga því að það var dásamlegt að skora á móti Brann, en jafn svekkjandi að þeir skyldu koma til baka með síðasta skoti leiksins."

Hver var lykillinn að góðum árangri liðsins?

„Lykillinn að góðu tímabili var mikil samstaða innan hópsins hjá okkur og vinnusemi. Þó að margir spáðu okkur hræðilegu gengi þá höfðum við alltaf trú á verkefninu og kom það að lokum í ljós að við eigum fyllilega skilið að spila í efstu deild."

Þú spilar einhverjar fimm leikstöður þegar ég skoða tímabilið þitt á Transfermarkt. Hvernig var að vera á smá stöðuflakki? Er hægri vængbakvörðurinn þín besta staða?

„Ég spáði ekki mikið í stöðuflakki, lít frekar á það sem styrkleika að geta leyst margar stöður, og í raun skiptir það mig ekki öllu máli hvar ég spila á vellinum. Ég myndi segja að mín sterkasta staða sé hægri bakvörður."

Ég tók eftir því að allir sigrar liðsins nema einn koma þegar þú ert í byrjunarliðinu, er það tilviljun?

„Ég tel það enga tilviljun að allir sigrar nema einn komi þegar ég er í byrjunarliði, það sýnir bara minn styrkleika á vellinum og gæðin sem ég hef fram að bjóða fyrir liðið."

Þrjátíu leikir eru leiknir í deildinni, Viðar byrjaði tuttugu þeirra, kom sjö sinnum inn á og missti af þremur leikjum.

Var mikill munur á leikstíl liðsins miðað við í deild fyrir neðan árið áður? Er efsta deild allt annað dýr heldur en næstefsta?

„Munurinn var ekki svo mikill á okkar leik frá því í fyrra, það sem breyttist kannski mest er það að mér fannst við spila okkar leik enn betur en við gerðum árið 2019. Höfðum spilað lengur saman sem lið og menn orðnir betur rútíneraðir í sínum hlutverkum. Efsta deildin er allt annar pakki en sú næst efsta. Í efstu deild eru öll lið með góða leikmenn í flest öllum stöðum og maður finnur bara að andrúmsloftið er allt annað og við tækluðum það bara virkilega vel."

Af hverju gekk þetta hjá ykkur en ekki hjá Álasund, besta liðinu í næstefstu deild árið 2019?

„Erfitt að segja af hverju þetta gekk vel hjá okkur en ekki Álasund, þeir komu sjóðheitir inní nýtt tímabil eftir ótrúlegt gengi 2019, en svo bara var þetta ekki að virka hjá þeim. Við einbeittum okkur bara að því sem við vorum að gera og létum ekkert trufla okkar markmið og það skilaði okkur 11. sæti."

Þið eruð með sex sigra, þrjú jafntefli og einungis eitt tap í leikjum gegn liðunum sem enda fyrir neðan ykkur í töflunni. Voruð þið sem lið eitthvað 'extra mótiveraðir' í þeim leikjum eða er þessi árangur tilviljun?

„Auðvitað vildum við taka stigin af liðunum sem voru í kringum okkur og já, kannski var það smá extra mótívering að geta séð það fyrir sér að skilja þessi lið eftir fyrir neðan okkur á stöðutöflunni eða þá að komast upp fyrir þau."

Þið vinnið báða leikina gegn Molde og stóðuð vel í Bodo/Glimt, Emil Pálsson kom einmitt inn á leikina við Bodo í viðtalinu um daginn. Hentaði leikstíll toppliðana ykkar leik vel eða eru slíkir leikir einhvern veginn besti glugginn til að sýna að þið eruð betri en sagt og spáð var um?

„Svo sem keimlíkt svar og mótiveringin á móti liðunum sem voru í kringum okkur. Þegar við vorum að spila við þessi topplið þá var það okkar að sýna þeim og öllum öðrum sem fylgdust með að við gætum og ættum fyllilega skilið að spila í efstu deild. Og okkur tókst vel til í því verkefni."

Þú segir eftirfarandi fyrir rúmu ári og svo aftur núna við mig um daginn: „Það þyrfti að koma gott tilboð til þess að ég færi frá Sandefjord". Er hár verðmiði á kallinum eða ertu einfaldlega í toppmálum hjá félaginu? Talaðir svo um nú síðast að þú munir skoða þig um í sumarglugganum, er ólíklegt að þú verðir hjá Sandefjord árið 2022?

„Haha, ég veit ekki með verðmiðann en ég þarf að fá eitthvað gómsætt tilboð til þess að ég flytji mig um set. Mér og minni fjölskyldu líður ljómandi vel hér og hef ég aldrei spilað betri fótbolta en núna. Þannig við skulum sjá hvað gerist í þessu, ég hef spilað í næstum fjögur ár hér í Noregi og bætt mig mikið sem leikmaður en ég veit að ég á enn mikið inni og set stefnuna klárlega á að spila í fleiri sterkum deildum í heiminum. Ég held öllum möguleikum opnum og hlakka til að sjá hvað kemur upp í sumar."

Ég spurði þig aðeins út í Emil í fyrra. Hvernig var fyrir liðið að hafa hann heilan á þessari leiktíð?

„Það var mjög gott að hafa Emma fit á þessu ári, hann kemur inn með sín gæði og drífanda. Það var alltaf virkilega gott að vita af honum á miðjunni til að halda öllu gangandi."

Hvernig voru ræðurnar hjá Emil fyrir leiki þar sem hann var fyrirliði?

„Ræðurnar voru svakalegar hjá gæjanum og ég mun aldrei gleyma því þegar að hann stjórnaði víkingaklappinu eftir sigurleik hjá okkur. Það var 'legendary moment'."

Emil er núna farinn til Sarpsborg, verður erfitt að fylla hans skarð í liðinu og missir fyrir þig að hafa hann ekki áfram í nánasta nágreni?

„Það verður erfitt að fylla skarðið sem hann skilur eftir, jafnt innan sem og utan vallar. En hann er nú ekki farinn langt, verður bara aðeins lengra fyrir hann að koma í sunnudagskaffið."

Ég spurði þig út í Arnar Þór (Guðjónsson, leikmann Grorud) síðasta vetur sem var á reynslu hjá ykkur. Hafðiru heyrt af honum áður en hann kom til ykkar? Talar hann íslensku?

„Já ég man eftir því, en nei ég hafði ekki heyrt af þeim kóngi og kom það mér mjög á óvart þegar hann sagðist vera Íslendingur. Það kölluðu hann allir Aaaarnar með vel norskum hreim og ekki datt mér í hug að hann skildi það sem ég og Emil vorum að bulla okkar á milli haha. En hann skilur íslenskuna vel en talar ekki svo mikið. Ég kynntist honum ekkert sérlega vel en í þann tíma sem hann æfði með okkur var hann algjör toppgaur."

Fylgistu með deildinni hérna heima? Þínir menn í Fjölni í brasi á síðustu leiktíð.

„Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki alveg að stilla nógu vel inn á Pepsí síðasta sumar og ekki hjálpaði til að sjá gengið hjá mínum mönnum. En ég hef engar áhyggjur, þetta er bara hraðahindrun á veginum og þeir verða mættir aftur upp í efstu deild áður en við vitum af," sagði Viðar. Hann var einnig spurður út í A-landsliðið og verður svar hans birt hér á síðunni seinna í dag.

Eftirfarandi greinar og viðtöl var vitnað í:
Emil Pálsson í útvarpsviðtali (10. jan '21)
Viðar Ari: Frábæru tímabili að ljúka (5. nóv '19)
Viðar stendur vaktina áfram en mun skoða sig um í sumar (10. jan '21)
Arnar Þór Guðjónsson á reynslu hjá Sandefjord (10. feb '20)
Athugasemdir
banner
banner
banner