
„Leikurinn var erfiður en Frakkar voru að tefja í 20 mínútur á móti Íslandi. Við getum verið mjög svekktar. Eins og ég segi að þá var þetta stóra og stjörnubjarta lið að tefja á móti okkur. Hefðum við fengið einn séns hefðum við jafnað leikinn.“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eftir 3-2 tap gegn Frakklandi í kvöld.
Lestu um leikinn: Frakkland 3 - 2 Ísland
Karólína segir að leikmenn franska liðsins hafi verið orðnar pirraðar og hún var ekki sátt með dómarann í kvöld.
„Þær voru orðnar drullu pirraðar og dómarinn féll fyrir þeim sem var ekki gaman. En við erum ennþá æstar í að vinna þær næst.“
Íslenska liðið náði tvisvar í leiknum að minnka muninn niður í eitt mark og halda okkur inni í leiknum.
„Við erum með frábæran karakter í liðinu. Við vitum að við getum alltaf skorað og þá sérstaklega úr föstum leikatriðum. Við verðum að byggja ofan á þetta.“
Karólína skoraði beint úr aukaspyrnu í dag og var spurð hvort hún hefur verið að æfa þessar spyrnur eitthvað.
„Fer þetta ekki hendina og inn? Ég ætlaði að setja hann í markmannshornið. Ég hitti hann nokkuð vel, hann fer svo í einhvern annan og inn. Mark er mark bara.“
Er þetta ekki lið sem við getum unnið heima á Íslandi og það sama á við um Sviss?
„Klárlega. Það sást alveg í lokin að við vorum að sækja á fullu til að jafna þetta og þær voru að tefja. Eins og ég segi erum við óðari í að vinna þær heima.“
Karólína segist vera súr með að hafa ekki unnið Sviss miðað við úrslitin og frammistöðuna í dag.
„Þegar maður horfir á þennan leik er maður ansi súr að hafa ekki unnið Sviss. Mér fannst við getað gert mun betur þá. En við sýndum góðan karakter í dag og við verðum bara að byggja ofan á þessa leiki.“ sagði Karólína Lea að lokum.
Viðtalið við Karólínu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir