Trent búinn að semja við Real um kaup og kjör - Man Utd ætlar að losa sig við Rashford og Casemiro - United skoðar ungan Tyrkja
banner
   þri 25. mars 2025 10:14
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sindri Kristinn: Það voru forréttindi að fá að spila fyrir FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Í síðustu viku lauk rúmlega tveggja ára kafla á ferli Sindra Kristins Ólafssonar en þá var hann seldur frá FH aftur til Keflavíkur en hann kom frá Keflavík á frjálsri sölu til FH eftir tímabilið 2022. Sindri var aðalmarkmaður FH í þann tíma sem hann var hjá félaginu, allt þar til danski markmaðurinn Matias Rosenörn var sóttur fyrr á þessu ári. Í kjölfarið voru allar líkur á því að Sindri myndi halda annað.

Hann var orðaður við fleiri félög en lendingin varð sú að hann hélt aftur heim til Keflavíkur. Sindri ræddi við Fótbolta.net um tíma sinn hjá FH.

„Heilt yfir leið mér hrikalega vel í Kaplakrika og forréttindi að fá að spila fyrir FH. Ég er orðinn hrikalega mikill FH-ingur eftir þennan tíma og þykir alveg ofsalega vænt um þetta félag," sagði Sindri.

„Ég myndi ekki segja að þetta hefði verið leiðinlegt hvernig þetta endaði, myndi frekar segja að þetta hafi verið góður endir fyrst ég fór aftur til míns uppeldisfélags."

Síðasta hálfa árið eða svo var FH orðað við aðra markmenn og nokkuð ljóst að það yrðu breytingar. Hvernig var þetta fyrir Sindra?

„Þetta var dálítið skrítin umræða," sagði Sindri og vitnaði í ummæli sín frá því fyrr í vetur. „Það er skrítið að vera svona utan við umræðuna; verið að orða hinn og þennan við stöðuna þína - sérstaklega þegar þú ert markmaður, er kannski öðruvísi þegar þú ert útileikmaður. Við Daði (Freyr Arnarsson), markmenn FH á þeim tíma, reyndum bara að undirbúa okkur vel og æfðum vel, reyndum að gera okkar besta og nálgunin sú að við myndum spila tímabilið, því maður veit aldrei hvað gerist. Svo kom í ljós að Matias kom, þá voru breyttar aðstæður hjá okkur báðum."

Að vera leikmaður FH, var meiri pressa að spila fyrir FH en Keflavík?

„Það er öðruvísi. Ég er mikill heimamaður og kannski meiri pressa þá frá mér sem Keflvíkingi að vera inni á vellinum. Það er öðruvísi pressa að vera í Kaplakrika. Samt upplifir maður aldrei einhverja útilokun eftir slæma frammistöðu eða slæm töp. Það var mikill þroski í félaginu og vilji til að gera betur. Maður fann virkilega að það var rosalega mikill vilji til að vinna leiki og þannig pressa á liðinu. Það var líka mikill kærleiki í Krikanum."

Vissir þú í lok tímabils 2024 að það yrðu breytingar?

„Alls ekki. Það kom mér bæði og á óvart. FH er stórt félag og vill bestu mennina sem völ er á í hverja stöðu. Við stóðum okkur ekki vel í úrslitakeppninni. Það var smá skrítinn aðdragandi í úrslitakeppninni þegar ég er settur á bekkinn, en úrslitakeppnin hjá mér persónulega endaði vel. Ég hafði því trú á því að þetta væri eitthvað stuð inn í næsta tímabil og æfði mjög vel um veturinn og gekk vel. Þetta kom mér því bæði á óvart, og ekki," sagði Sindri sem lék 43 deildarleiki með FH á árunum tveimur.
Var í viðræðum við óvænt félag er Keflavík hafði samband - „Á alltaf að treysta innri tilfinningu"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner