Nígeríski framherjinn Victor Osimhen er búinn að biðjast afsökunar á hegðun sinni þegar honum var skipt af velli á 86. mínútu í markalausu jafntefli Napoli gegn Bologna í ítalska boltanum í gær.
Osimhen brást reiðilega við skiptingunni og settist fúll á bekkinn. Giovanni Di Lorenzo fyrirliði Napoli sagði eftir leik að svona hegðun væri ekki hjálpsamleg á erfiðum kafla fyrir félagið.
Nú greina ítalskir fjölmiðlar frá því að Osimhen sé búinn að biðja Rudi Garcia þjálfara og liðsfélaga sína afsökunar á æfingu Napoli í dag. Hann hélt stutta ræðu í klefanum þar sem hann baðst afsökunar og viðurkenndi að keppnisskapið hafi hlaupið með sig í gönur.
Napoli heldur tryggð við Rudi Garcia nýjan þjálfara félagsins þrátt fyrir að Ítalíumeistararnir séu aðeins búnir að krækja sér í tvö stig úr síðustu þremur deildarleikjum.
Sjá einnig:
Sjáðu atvikið: Osimhen reiddist við skiptinguna