Það voru nokkur Íslendingalið sem áttu leiki í kvöld en aðeins einn Íslendingur sem kom við sögu.
Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði NAC Breda í góðum sigri á útivelli gegn varaliði AZ Alkmaar. Elías spilaði fyrstu 79 mínúturnar og var skipt útaf í stöðunni 1-3 fyrir Breda, en lokatölur urðu 2-3.
Þetta var dýrmætur sigur fyrir Breda í umspilsbaráttunni, þar sem liðið er að reyna að koma sér upp í efstu deild í Hollandi.
FC Kaupmannahöfn vann þá 2-0 sigur gegn Nordsjælland í efstu deild danska boltans en Rúnar Alex Rúnarsson var ónotaður varamaður á meðan Orri Steinn Óskarsson var ekki með í hópnum annan leikinn í röð. FCK er í öðru sæti eftir þennan sigur, einu stigi eftir toppliði Bröndby.
Valgeir Lunddal Friðriksson var ekki heldur í hóp er BK Häcken tapaði óvænt útileik gegn Landskrona í sænska bikarnum. Nú þarf Hacken sigur í úrslitaleik gegn toppliði Brommapojkarna til að komast upp úr riðlinum.
Jong AZ 2 - 3 NAC Breda
FC Kaupmannahöfn 2 - 0 Nordsjælland
Landskrona 3 - 2 Häcken
Athugasemdir