
Það styttist í að Arnar Gunnlaugsson tilkynni sinn fyrsta landsliðshóp. Arnar var ráðinn landsliðsþjálfari núna um miðjan janúar og það ríkir mikil eftirvænting fyrir hans fyrsta verkefni.
Það verður áhugavert að sjá hvernig hóp Arnar velur í umspilsleikina gegn Kosóvó í Þjóðadeildina. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en hér fyrir neðan má sjá hvernig landið liggur fyrir nýja landsliðsþjálfarann.
Það verður áhugavert að sjá hvernig hóp Arnar velur í umspilsleikina gegn Kosóvó í Þjóðadeildina. Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en hér fyrir neðan má sjá hvernig landið liggur fyrir nýja landsliðsþjálfarann.
Markverðir
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári
Elías Rafn Ólafsson - Midtjylland
Hákon Rafn Valdimarsson - Brentford
Patrik Sigurður Gunnarsson - Kortrijk
Lúkas J. Blöndal Petersson - Hoffenheim
Elías Rafn og Patrik hafa að mestu verið aðalmarkverðir hjá sínum liðum á tímabilinu en Patrik hefur verið meiddur að undanförnu og ekki spilað. Þá hefur Elías verið inn og út í baráttu við Jonas Lössl í síðustu leikjum. Hákon Rafn, sem var markvörður númer eitt hjá landsliðinu í fyrra, er varamarkvörður hjá Brentford í ensku úrvalsdeildinni og hefur lítið spilað á tímabilinu. Þá er Lúkas varaliðsmarkvörður hjá Hoffenheim.
Það er erfitt að sjá það að einhverjir aðrir markverðir blandi sér í baráttuna um að komast í þennan hóp að þessu sinni. Rúnar Alex Rúnarsson er ekkert að spila með FC Kaupmannahöfn og næstu menn inn þar á eftir eru Adam Ingi Benediktsson sem er að spila í Svíþjóð, Anton Ari Einarsson hjá Breiðabliki og Ingvar Jónsson hjá Víkingum.
Hægri bakverðir
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári:
Guðlaugur Victor Pálsson - Plymouth
Alfons Sampsted - Birmingham
Valgeir Lunddal - Düsseldorf
Bjarki Steinn Bjarkason - Venezia
Dagur Dan Þórhallsson - Orlando
Guðlaugur Victor er settur í þennan hóp þar sem hann hefur oft leyst stöðu hægri bakvarðar í landsliðinu og gert það oft á tíðum vel. Hann hefur átt upp og niður tímabil með Plymouth í ensku Championship-deildinni en hefur spilað mikið. Alfons Sampsted fór til Birmingham síðasta sumar og hefur verið í litlu hlutverki þar en skipti Valgeirs Lunddal til Düsseldorf hafa heppnast betur. Bjarki Steinn leysti þessa stöðu eftirminnilega með prýði á Wembley en hann hefur ekki verið að spila mikið með Venezia á Ítalíu. Þá er Dagur Dan að hefja nýtt tímabil með Orlando þar sem hann hefur verið með betri leikmönnum í sinni stöðu í Bandaríkjunum undanfarin ár. Það er spurning hvort hann fái stærra hlutverk hjá Arnari en síðustu landsliðsþjálfurum.
Næstu menn inn í stöðu hægri bakvarðar eru líklega bara Höskuldur Gunnlaugsson og Karl Friðleifur Gunnarsson sem spila hér heima með Breiðabliki og Víkingi, en það er ólíklegt að þeir verði í fyrsta landsliðshópnum sem Arnar tilkynnir.
Miðverðir
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári:
Aron Einar Gunnarsson - Al-Gharafa
Daníel Leó Grétarsson - SönderjyskE
Sverrir Ingi Ingason - Panathinaikos
Hjörtur Hermannsson - Volos
Hlynur Freyr Karlsson - Brommapojkarna
Brynjar Ingi Bjarnason - HamKam
Okkar mesta vandræðastaða ef svo má segja, en Arnar sagði á sínum fyrsta fréttamannafundi að hann hefði ekki áhyggjur.
Sverrir Ingi er okkar fremsti varnarmaður í dag og hann er að spila stórt hlutverk með Panathinaikos í Grikklandi. Aron Einar, sem er orðinn 35 ára, hefur spilað alla leiki með Al-Gharafa í Meistaradeild Asíu en ekkert utan þess. Daníel Leó er meiddur en Hjörtur Hermanns hefur byrjað alla leiki með nýju liði í Grikklandi. Hlynur og Brynjar eru ólíklegir í fyrsta hóp Arnars en þeir eru á undirbúningstímabili og voru ekki fastamenn í hópnum á síðasta ári.
Hörður Björgvin Magnússon, sem er einnig á mála hjá Panathinaikos, spilaði ekkert á síðasta ári vegna erfiðra meiðsla en hann hefur ekki enn jafnað sig af þeim. Annars er býsna erfitt að sjá einhverja aðra, sem voru ekki í hópnum í fyrra, detta þarna inn.
Vinstri bakverðir
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári:
Guðmundur Þórarinsson - Noah
Kolbeinn Birgir Finnsson - Utrecht
Logi Tómasson - Stromsgödset
Rúnar Þór Sigurgeirsson - Willem II
Logi Tómasson kom sterkur inn undir lok síðasta árs og hann lék afar vel með Stromsgödset í Noregi á síðasta tímabili. Hann hefur verið undir smásjá stærri félaga en enn sem komið er hefur ekkert gerst í þeim efnum. Kolbeinn Birgir hefur aðeins spilað 33 mínútur í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og Gummi Tóta er að spila með Noah í Armeníu, en þó ekki sérstaklega mikið. Rúnar Þór Sigurgeirsson er áhugaverður kostur í fyrsta hóp Arnars en hann hefur spilað mikið í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Davíð Kristján Ólafsson hefur verið að leika vel í Póllandi og gerir kannski tilkall hjá nýjum landsliðsþjálfara. Atli Barkarson er þá kostur sem Arnar þekkir vel en hann hefur verið að spila flesta leiki með Zulte Waregem, toppliði belgísku B-deildarinnar, og þá er Daníel Freyr Kristjánsson spennandi kostur en líklega ekki alveg tilbúinn strax þar sem hann er að spila í dönsku 1. deildinni.
Miðjumenn
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári:
Jóhann Berg Guðmundsson - Al-Orobah
Ísak Bergmann Jóhannesson - Fortuna Düsseldorf
Arnór Ingvi Traustason - Norrköping
Hákon Arnar Haraldsson - Lille
Kristian Nökkvi Hlynsson - Sparta Rotterdam
Willum Þór Willumsson - Birmingham
Stefán Teitur Þórðarson - Preston
Gylfi Þór Sigurðsson - Víkingur R.
Júlíus Magnússon - Elfsborg
Þegar við komum svo framar á völlinn verða möguleikarnir enn meiri og áhugaverðari. Þarna er líklega okkar besti leikmaður í augnablikinu, Hákon Arnar Haraldsson, sem hefur verið að spila frábærlega með Lille í Frakklandi. Vinur hans af Skaganum, Ísak Bergmann Jóhannesson, er kóngurinn í Düsseldorf og hann gerir kröfu á hlutverk í þessu liði. Reynsluboltarnir Jóhann Berg og Arnór Ingvi eru enn á fullu og hefur sá fyrrnefndi verið að finna sig vel í Sádi-Arabíu. Willum Þór og Stefán Teitur hafa passað vel inn í enska boltann og þá var Júlíus Magnússon að fá mjög öflug skipti í Elfsborg eftir að hafa leikið vel í Noregi. Kristian Nökkvi Hlynsson, einn okkar efnilegasti leikmaður, var að skipta yfir í Spörtu Rotterdam til að fá meiri spiltíma og Gylfi Þór Sigurðsson, besti landsliðsmaður sögunnar, var að skipta í Víking þar sem hann ætlar sér að verða Íslandsmeistari. Hann hefur verið í sambandi við nýja landsliðsþjálfarann.
En svo eru möguleikarnir enn fleiri. Gísli Gottskálk Þórðarson, leikmaður sem Arnar var með í Víkingi, gerir tilkall í hópinn þar sem hann fékk nýverið félagaskipti í Lech Poznan, besta lið Póllands, og hefur verið að spila þar. Logi Hrafn Róbertsson er kominn til Króatíu og er að spila þar sem djúpur miðjumaður. Þórir Jóhann Helgason hefur verið að spila með Lecce í Serie A, Kolbeinn Þórðarson spilaði stórt hlutverk með Gautaborg á síðasta tímabili og ef Arnar vill leita í enn meiri reynslu, þá er Birkir Bjarnason möguleiki. Birkir hefur spilað hlutverk með Brescia í næst efstu deild á Ítalíu.
Kantmenn
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári:
Jón Dagur Þorsteinsson - Hertha Berlín
Mikael Egill Ellertsson - Venezia
Mikael Neville Anderson - AGF
Arnór Sigurðsson - Malmö
Á köntunum erum við líka með fína möguleika. Jón Dagur Þorsteinsson hefur verið inn og út úr liðinu hjá Hertha Berlín í Þýskalandi en leikur alltaf vel með landsliðinu. Mikael Egill Ellertsson er afar spennandi leikmaður sem hefur spilað stórt hlutverk í Serie A á Ítalíu á tímabilinu og var nýverið keyptur til Genoa á mikinn pening. Mikael Neville er einn besti leikmaður dönsku deildarinnar og Arnór Sigurðsson skipti nýverið yfir til sænska meistaraliðsins Malmö, en hann hefur þó ekki spilað í langan tíma.
Við mættum kannski vera með aðeins meiri breidd á köntunum í hreinskilni sagt. Næstu menn inn þar eru líklega Nökkvi Þeyr Þórisson sem er að spila í Hollandi og Ísak Andri Sigurgeirsson sem er að spila með Norrköping í Svíþjóð. Það er líklega ekki mjög langt í það að Ari Sigurpálsson, leikmaður Víkinga, verði búinn að koma sér inn í myndina ef hann heldur áfram á sömu braut.
Framherjar
Þeir sem voru í hóp á síðasta ári:
Orri Steinn Óskarsson - Real Sociedad
Andri Lucas Guðjohnsen - Gent
Albert Guðmundsson - Fiorentina
Brynjólfur Andersen Willumsson - Groningen
Sævar Atli Magnússon - Lyngby
Það ber fyrst að nefna að Albert Guðmundsson er meiddur og verður að öllum líkindum ekki í fyrsta hóp Arnars. Orri Steinn hefur verið inn og út úr liðinu á sínu fyrsta tímabili með Real Sociedad og ekki náð miklum stöðugleika. Það sama má segja um Andra Lucas sem hefur skorað fjögur mörk í belgísku úrvalsdeildinni á tímabilinu en hann og Orri voru frábærir saman í fremstu víglínu landsliðsins undir lok síðasta árs. Það er spurning hvort Arnar vilji halda í það tvíeyki. Brynjólfur Willumsson er ekki alltaf í byrjunarliði Groningen en Sævar er lykilmaður hjá Lyngby í Danmörku.
Það eru áhugaverðir kostir fyrir Arnar í stöðunni ef hann vill eitthvað hrista upp í þessu. Jón Daði Böðvarsson hefur farið af stað með krafti hjá Burton í ensku C-deildinni, Ísak Snær Þorvaldsson er á mála hjá Rosenborg í Noregi og Elías Már Ómarsson hefur gert sjö mörk í hollensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Stefán Ingi Sigurðarson hefur þá verið öflugur á undirbúningstímabilinu með Sandefjord í Noregi.
Mögulegur fyrsti hópur Arnars:
Elías Rafn Ólafsson - Midtjylland
Hákon Rafn Valdimarsson - Brentford
Patrik Sigurður Gunnarsson - Kortrijk
Guðlaugur Victor Pálsson - Plymouth
Valgeir Lunddal - Düsseldorf
Aron Einar Gunnarsson - Al-Gharafa
Sverrir Ingi Ingason - Panathinaikos
Hjörtur Hermannsson - Volos
Logi Tómasson - Stromsgödset
Rúnar Þór Sigurgeirsson - Willem II
Júlíus Magnússon - Elfsborg
Jóhann Berg Guðmundsson - Al-Orobah
Ísak Bergmann Jóhannesson - Fortuna Düsseldorf
Arnór Ingvi Traustason - Norrköping
Hákon Arnar Haraldsson - Lille
Willum Þór Willumsson - Birmingham
Stefán Teitur Þórðarson - Preston
Gylfi Þór Sigurðsson - Víkingur R.
Jón Dagur Þorsteinsson - Hertha Berlín
Mikael Egill Ellertsson - Venezia
Mikael Neville Anderson - AGF
Arnór Sigurðsson - Malmö
Orri Steinn Óskarsson - Real Sociedad
Andri Lucas Guðjohnsen - Gent
Athugasemdir