Eddie Howe, stjóri Newcastle United, var vonsvikinn og sár eftir 2-0 tapið gegn Manchester United í úrslitum enska deildabikarsins á Wembley í gær.
Enski stjórinn hefur breytt Newcastle úr fallbaráttuliði í lið sem er í baráttu um Evrópusæti.
Vissulega hefur hann fengið hjálp frá moldríkum eigendum félagsins en einnig verið skynsamur í leikmannakaupum og fundið rétta leikstílinn fyrir liðið.
Liðið átti alls ekki slakan leik gegn Man Utd heldur reyndist andstæðingurinn einfaldlega of sterkur.
„Mér fannst við veita þeim samkeppni. Ég get ekki sakast við leikmennina og það sem þeir gáfu mér í þessum leik. Þessi leikur ræðst á stórum augnablikum og aukaspyrnunni, sem við vörðumst ekki nógu vel og það eru augnablikin sem við munum horfa til baka og hugsa um.“
„Þetta skilur okkur eftir með þessari tilfinningu að tapa í úrslitaleik og það er aldrei gott. Við erum ótrúlega vonsviknir en ég er þegar farinn að horfa í framtíðina. Við erum örvæntingarfullir að komast aftur þangað og vinna þennan bikar.“
„Það að sjá stuðningsfólkið, sem hefur verið algjörlega ótrúlegt á þessu ári, vonsvikið og sært hefur í raun sært okkur illa í leiðinni og núna höfum við hvatningu til þess að komast aftur þangað til að vinna bikarinn sem þau eiga skilið,“ sagði Howe í lokin.
Athugasemdir