Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   mán 27. febrúar 2023 09:25
Elvar Geir Magnússon
Köstuðu þúsundum leikfanga inn á völlinn
Stuðningsmenn tyrkneska liðsins Besiktas köstuðu þúsundum 'bangsa' inn á völlinn í leik liðsins gegn Antalyaspor. Leikföngunum var svo safnað saman og þau verða gefin börnum sem urðu fyrir áhrifum af jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi.

Gert var hlé á leiknum eftir fjórar mínútur og sautján sekúndur en fyrsti jarðskjálftinn sem skók Tyrkland og Sýrland var klukkan 04:17 þann 6. febrúar.

Yfir 50 þúsund manns hafa látist eftir jarðskjálftana.

Það voru stuðningsmenn Besiktas sem stóðu fyrir þessum táknræna viðburði í gær og var hann kallaður 'Þetta leikfang er vinur minn'.

Leikmenn Besiktas hituðu upp í treyjum merktum þeim borgum landsins sem urðu fyrir jarðskjálftunum og fyrir leikinn var klappað fyrir björgunarsveitafólki.

Fótboltaliðin Gaziantep og Hatayspor hafa dregið sig úr tyrknesku deildakeppninni þetta tímabilið eftir jarðskjálftana. Christian Atsu, leikmaður síðarnefnda liðsins, var meðal fórnarlamba skjálftana og fannst látinn undir húsarústum.


Athugasemdir
banner
banner
banner