Ravel Morrison, leikmaður D.C. United í Bandaríkjunum, verður ekki í leikmannahópi liðsins á þessu tímabili en þetta staðfesti Wayne Rooney, þjálfari liðsins, í gær.
Morrison, sem er uppalinn hjá Manchester United, æfði og spilaði með Rooney hjá enska félaginu.
Hann var talinn einn allra efnilegasti leikmaður Englands og fullyrti Sir Alex Ferguson, fyrrum stjóri Manchester United, í ævisögu sinni að Morrison væri sá hæfileikaríkasti sem hann hefur þjálfað.
Ferill hans var þó ekki alveg í takt við þessa mögnuðu hæfileika og hefur hann farið víðs vegar um heiminn í þeim tilgangi að blómstra en það var ekki fyrr en Rooney fékk hann til Derby County sem sást glitta í þessa hæfileika.
Þar spilaði hann frábærlega og fór það svo að Rooney fékk hann með sér til Bandaríkjanna en hann náði sér ekki almennilega á strik á síðasta tímabili og skoraði aðeins 2 mörk í 14 leikjum.
Hann verður ekki í leikmannahópnum hjá D.C. United á þessari leiktíð en verður áfram á launaskrá og má æfa með liðinu. Hann má hins vegar ekki spila og því líklegt að hann yfirgefi félagið í sumar.
„Mér fannst bara miðað við leikmennina sem við fengum inn og þá ólíku hluti sem þú þarft þegar það kemur að fjárhagsáætlun, útlendingakvóta og slíku að það væri mikilvægra að fá aðra leikmenn í aðrar stöður. Það var mikilvægast fyrir mig,“ sagði Rooney.
Athugasemdir