Barcelona tapaði óvænt fyrir Almería, 1-0, í La Liga á Spáni í gær en Xavi, þjálfari liðsins, lýsir þessu sem verstu frammistöðu tímabilsins.
Toppliðið var í miklum erfiðleikum með að brjóta Almería aftur á bak og var Rodrigo Ely, miðvörður Almería, í essinu sínu og vann alla bolta í teignum.
Barcelona var meira og minna með boltann í leiknum en tókst engan veginn að reyna á markvörð Almería.
Þetta var aðeins annað tap Barcelona á tímabilinu þessi frammistaða var ekki boðleg að mati Xavi.
„Ég er mjög reiður því mér fannst þetta vera versta frammistaða tímabilsins,“ sagði Xavi við Movistar.
„Við náðum ekki að færa boltann á milli í fyrri hálfleik og það vantaði alla ákefð, hraða og það á degi þar sem við máttum ekki klúðra málunum. Við sýndum ekki þessa ástríðu sem við þurftum til að vinna leikinn. Við gerðum það í síðari hálfleik en þeir vörðust vel.“
Barcelona er með 59 stig í efsta sæti La Liga, sjö stigum á undan Real Madrid.
Athugasemdir