Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic er elsti leikmaður AC Milan í efstu deild á Ítalíu en hann bætti metið er hann kom inná í 2-0 sigrinum á Atalanta í gær.
Zlatan spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu er hann kom inná sem varamaður á 74. mínútu í sigrinum.
Hann hefur glímt við erfið meiðsli síðasta árið en er nú klár að hjálpa Milan að ná Meistaradeildarsæti.
Framherjinn var 41 árs og 125 daga gamall í gær er hann bætti met Alessandro Costacurta. Zlatan er nú sá elsti til að spila fyrir félagið í efstu deild síðan ítalska deildin fór að gefa þrjú stig fyrir sigur en því var breytt árið 1994. Áður voru tvö stig gefin fyrir sigur.
Hann er þó langt frá því að vera elsti leikmaður deildarinnar frá upphafi en Marco Ballotta á það met. Hann var 44 ára og 38 daga gamall er hann spilaði leik Lazio og Genoa árið 2008.
Athugasemdir