
Á miðnætti í kvöld mun Ísland leika vináttulandsleik gegn Perú í kvöld. Fótbolti.net ræddi við Emil Hallfreðsson á æfingu Íslands í New York í gær.
„Þetta er skemmtilegt verkefni. Perú er með hörkulið og er á svakalegu róli. Þeir tóku Króatana 2-0 og þetta verður mjög erfiður leikur," segir Emil.
Þrátt fyrir 3-0 tap gegn Mexíkó á föstudaginn vilja leikmenn ekki vera að mála þann leik of dökkum myndum.
„Við erum ekki að pæla mjög mikið í því. Við höfum farið yfir jákvæðu hlutina og þeir voru margir þrátt fyrir lokatölurnar. Við ætlum að fara inn í þennan leik gegn Perú með það í huga að gera betur en gegn Mexíkó."
Emil segir að þessir vináttulandsleikir séu fullkominn undirbúningur fyrir HM. Hann hefur ekki fengið að spila mikið með Udinese síðustu tvo mánuði og segir að það hafi verið kærkomið fyrir sig persónulega að fá 70 mínútur gegn Mexíkó.
„Auðvitað væri skemmtilegra að vera að spila meira með Udinese en reynslan vegur upp á móti. Mér leið bara ágætlega inni á vellinum."
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan en þar talar Emil meðal annars um muninn á því að spila á tveggja manna miðju og þriggja manna.
Athugasemdir