Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. janúar 2020 13:33
Elvar Geir Magnússon
86% leikmanna vilja lengja Íslandsmótið
Þreföld umferð vinsælasti kosturinn
Leikmenn vilja lengra Íslandsmót.
Leikmenn vilja lengra Íslandsmót.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Mynd: Leikmannasamtökin
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Mynd: Leikmannasamtökin
Leikmannasamtök Íslands framkvæmdu skoðanakönnun meðal leikmanna í Pepsi Max-deild karla vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í gangi um að lengja tímabilið.

Leikmenn deildarinnar vilja, í mjög miklum meirihluta, að mótið verði lengt. 86% þeirra sem tóku þátt í könuninni vilja lengja mótið.

Sá kostur sem er vinsælastur meðal leikmanna er að spila þrefalda umferð í tólf liða deild.

Tilkynningin frá leikmannasamtökunum:
Nú á dögunum var send könnun á leikmenn þeirra tólf lið sem koma til með að spila í Pepsi Max-deild karla árið 2020. Tilgangur könnunarinnar var að athuga hvert viðhorf leikmanna væri til þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um mögulegar breytingar á Íslandsmótinu.

Könnunin var fremur einföld, leikmenn voru spurðir um aldur og hvaða félagi þeir spila með – og í kjölfarið voru þeir svo spurðir hvort þeir væru hlynntir lengingu Íslandsmótsins eða ekki, ef til lengingar kæmi hvaða leið þeim þótti heppilegust (þar voru leikmönnum gefnir þeir fjórir valmöguleikar sem hafa verið hvað mest í umræðunni), hvort þeim þætti mikilvægt að gert yrðir „sumarhlé“ á deildinni ef til þess kæmi að Íslandsmótið yrði lengt og að lokum hvort þeim þætti mikilvægt að samningar yrðu endurskoðaðir í ljósi þess að verið væri að lengja tímabilið.

169 leikmenn frá þessum 12 liðum tóku þátt, eða um 70% af leikmönnum deildarinnar ef miðað er við 20 manna leikmannahóp.

Tæplega 86% þeirra sem tóku könnunina, eða 145 leikmenn, sögðust vera hlynntir því að Íslandsmótið yrði lengt. Tæplega 6% sögðust ekki vilja það á meðan rúmlega 8% höfðu ekki skoðun á því.

Tæplega helmingur þeirra sem svöruðu, eða 47%, voru á því að deildin ætti að samanstanda af 12 liðum sem myndu spila þrefalda umferð. Tæplega 24% vildu hafa 14 liða deild með tvöfaldri umferð, rúmlega 17% vildu fækka liðunum niður í 10 lið og spila þrefalda umferð og rúmlega 12% vildu fjölga í 16 lið og að áfram yrði spiluð tvöföld umferð.

Tæplega 63% leikmanna þótti það mikilvægt eða mjög mikilvægt að gert yrði sumarhlé á deildinni ef til þess kæmi að mótið yrði lengt. Það skipti ekki máli hjá 26% leikmanna og rúmlega 11% sögðu að það væri ekki svo eða alls ekki mikilvægt.

Að lokum voru það tæplega 72% leikmanna sem sögðu að það væri mikilvægt eða mjög mikilvægt að samningar yrðu endurskoðaðir ef til þess kæmi að Íslandsmótið yrði lengt. Það skipti ekki máli hjá rúmlega 21% leikmanna og rúmlega 7% sögðu að það væri ekki svo eða alls ekki mikilvægt.

Niðurstöðurnar sýna að leikmenn vilja, í mjög miklum meirihluta, að mótið verði lengt. Tæplega helmingur var sammála um hvernig ætti að gera það, það er 12 liða deild með þrefaldri umferð.

Niðurstöðurnar sýna okkur einnig að það skiptir leikmenn máli, ef það kemur til þess að mótið verði lengt, að það verði gert hlé á deildinni yfir sumarið eins og þekkist í deildum nágrannalanda okkar. Á meðan að deildin er ekki atvinnumannadeild að þá þarf að huga að þessum hlutum þar sem að flestir leikmenn eru í skóla eða vinnu með og eiga margir hverjir fjölskyldur. Að auki vilja leikmenn í miklum meirihluta að samningar verði endurskoðaðir komi til þess að Íslandsmótið verði lengt. Núverandi samningar voru gerðir með ákveðið mikla vinnu í huga og forsendurnar eru orðnar allt aðrar ef leikjunum fjölgar úr 22 í 33 eins og ein leiðin gerir ráð fyrir.

Það er mikilvægt að sjónarmið leikmanna komi fram og séu ekki hundsuð. Án leikmannanna væri enginn fótboltaleikur. Leikmenn eru á því, eins og aðrir hagsmunaaðilar, að það sé gæfuspor að lengja Íslandsmótið. Við þurfum samt að stíga varlega til jarðar og vanda okkur hvaða leið við förum. Það þarf að gera í sameiningu og best væri að finna lendingu þar sem sem flestir væru sáttir.

Við hlökkum mikið til að sjá hvað gerist í þessum efnum og höldum áfram að standa vörð um hagsmuni leikmanna í íslenskum fótbolta.
Athugasemdir
banner
banner
banner